Ungmennaráð Árborgar lét í sér heyra
Ungmennaráð Árborgar mætti á fund bæjarstjórnar í gær og kynntu skelegg og vel máli farin helstu áherslur og tillögur ráðsins fyrir komandi misseri.
Við getum öll verið stolt af ungmennum sveitarfélagsins sem eru ekki framtíðin heldur nútíðin og á þau eigum við að hlusta strax í dag.
Ungmennaráð Árborgar samanstendur af fulltrúum ungmenna víðs vegar úr sveitarfélaginu og hefur unnið markvisst að því síðastliðið ár að greina áskoranir og tækifæri í nærumhverfinu. Á fundinum flutti ráðið sex tillögur, sem allar miðuðu að því að bæta þjónustu, aðstöðu og lífsgæði barna og ungmenna í Árborg.
Tillögurnar sem voru kynntar fyrir bæjarstjórn voru eftirfarandi:
Ungmennaráðið lagði til að sveitarfélagið sýni frumkvæði og hefji viðræður við ríkið um uppbyggingu nýrrar heimavistar við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þörf er á nýrri og stærri heimavist til að tryggja nemendum aðgengi að námi án langra daglegra akstursleiða.
Ungmennaráðið lagði til að samræma einkunnakerfi í grunnskólum sveitarfélagsins. Að skólakerfið í Árborg bjóði upp á jafnræði og samræmd viðmið í námsmati.
Ungmennaráðið lagði til að með sölu menningarsalarins stofni Sveitarfélagið menningarhús í Árborg. Menningarhús væri sameiginleg aðstaða fyrir viðburði, listir og menningu innan sveitarfélagsins.
Ungmennaráðið minnti á jafnræði í þjónustu við Stokkseyri og Eyrarbakka þegar kemur að skólamálum, samgöngum og sundlauginni.
Ungmennaráðið fór nýverið í vettvangsferð til að skoða leikvelli í sveitarfélaginu og meta ástand þeirra. Ungmennaráðið gerði grein fyrir ástandi leikvalla í Árborg og lagði til að bæjarstjórn taki til endurskoðunar ástand og búnað leikvalla sveitarfélagsins með það að markmiði að bæta aðstöðu og fjölbreytni.
Að lokum lagði ungmennaráðið til að Árborg innleiði verklag UNICEF og verði barnvænt sveitarfélag. Það myndi tryggja aukna þátttöku barna og ungmenna í ákvarðanatöku. Fulltrúar Ungmennaráðs lögðu áherslu á að markmiðið væri að stuðla að sanngjörnu, öflugu og barnvænu samfélagi þar sem raddir ungmenna fá vægi.
Bæjarstjórn þakkaði ráðinu fyrir vandaða og góða vinnu og tók tillögunum vel.

