UNICEF heimsækir sveitarfélögin í átaki gegn ofbeldi á börnum
22. ágúst 2019
Sveitarfélögin á Árborgarsvæðinu fengu góða heimsókn fimmtudaginn 22. ágúst 2019. Róðrakappinn Einar Hansberg Árnason mætti á Selfoss um hádegi og þaðan var ferðinni heitið í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Stokkseyri. Þetta er liður í því að vekja athygli á málefninu og styðja baráttu UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum. Einar stoppar í 36 sveitarfélögum á leið sinni til að róa, skíða eða hjóla 13 þúsund metra í hverju þeirra, einn meter fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi fyrir 18 ára aldur á Íslandi. Markmiðið er að þrýsta á sveitarfélög til að innleiða heildstætt verklag vegna gruns um ofbeldi og vanrækslu. UNICEF skorar á stjórnvöld, sveitarfélög og almenning til að finna leiðir til að koma í veg fyrir ofbeldi og bregðast við ef grunur leikur á að ofbeldi eigi sér stað. Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar, heilsaði upp á Einar og aðstoðarfólk hans og upplýsti þau um að þessa dagana væri einmitt verið að endurskoða verklag og auka þverfaglegt samstarf milli deilda fjölskyldusviðs. Undir fagsviðinu eru m.a. barnavernd og ráðgjafarþjónusta, stoð- og stuðningsþjónusta, forvarnarmálin, menningar- og frístundaþjónusta, skólaþjónusta sem og leik- og grunnskólar sveitarfélagsins.