Úthlutun á leikskólaplássum í Árborg
Sveitarfélagið Árborg hefur nýlokið við að úthluta leikskólaplássum fyrir komandi skólaár. Samkvæmt innritunarreglum sveitarfélagsins er miðað við að börn sem verða tveggja ára á árinu fái leikskólapláss en nú er leitast við að öll börn 18 mánaða og eldri fái pláss.
Við nýgerða úthlutun hafa öll börn á þessum aldri fengið loforð um leikskólapláss. Er ánægjulegt að hægt hefur verið að fylgja gildandi innritunarreglum og gott betur. Eins og staðan er núna eru nokkur pláss laus og unnið er að frekari yfirferð á biðlistum.
Nýverið var tekinn í notkun nýr leikskóli í sveitarfélaginu, leikskólinn Goðheimar á Selfossi. Fyrst um sinn var ákveðið að taka í notkun þrjár deildir, til samræmis við íbúafjölgun, og gert ráð fyrir þeim rekstri í fjárhagsáætlun ársins 2021. Goðheimar er sex deilda leikskóli og því miklir möguleikar á að bregðast við óskum um innritun barna á næsta ári, samkvæmt innritunarreglum sveitarfélagsins.
Að undanförnu hefur verið mikil ásókn í innritun yngri barna en 18 mánaða, sem er talsvert yngra en kveðið er á um í innritunarreglum. Fram til þess hafa stundum verið innrituð yngri börn en reglur segja til um, ef aðstæður hafa leyft það. Vegna þessarar miklu aðsóknar er verið að skoða slíkar óskir, meta fjölda umsókna um innritun yngri barna, aldur þeirra og möguleg úrræði.
Ef tekin verða inn yngri börn en reglur segja til um leiðir það til aukins rekstrarkostnaðar hjá sveitarfélaginu sem væri umfram heimildir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021. Þess vegna er verið að greina þessar óskir og umfang þeirra og reikna út viðbótarkostnað af hugsanlegum viðbrögðum, því ef ákvörðun verður tekin í þessa veru þarf að afgreiða viðauka við fjárhagsáætlun ársins í bæjarstjórn. Rekstur sveitarfélagsins, hér eins og annars staðar, er þungur um þessar mundir og í mörg horn að líta þegar kemur að forgangsröðun verkefna og fjárfestinga.
Verkefnið þessa dagana er engu að síður að skoða og greina málið, leita lausna og taka síðan í framhaldinu ákvörðun í ljósi stöðunnar.
