Vel heppnaður sumarlestur á Bókasafni Árborgar, Selfossi
Sumarlestur Bókasafns Árborgar á Selfossi hófst þann 11. júní en þá mætti enginn annar en Ævar Þór Benediktsson rithöfundur í heimsókn.
Ævar sagði frá þeim bókum sem hann hefur skrifað og þeim sem hann er að skrifa og las svo upp úr þeirr bók sem er væntanleg innan skamms. Það var spennandi stund því þetta var fyrsti upplestur Ævars úr bókinni sem enginn hafði fengið að sjá eða heyra áður.
Sú hefð hefur skapast að fara í ratleik á safninu og er það jafnan síðasti viðburður Sumarlesturs
Eins og undanfarin ár var mikið fjör og frábær stemning og krakkarnir stóðu sig frábærlega vel í að leysa hinar ýmsu gátur og þrautir.
Sumarlesturinn fær nýtt þema á hverju ári og í ár eru það Múmínálfarnir sem eru í aðalhlutverki enda fagna þeir 80 ára afmæli í ár. Þetta er í 32. sinn sem Sumarlestur er haldinn á Bókasafni Árborgar en það var einmitt þáverandi starfsmaður safnsins sem fékk þessa frábæru hugmynd og hratt henni í framkvæmd.
Sumarlestur er ókeypis lestrarhvetjandi námskeið fyrir krakka í 3. - 5. bekk
Börnin koma á bókasafnið einu sinni í viku í júní þar sem þau fá skemmtilega fræðslu og taka þátt í lestrarhvetjandi uppákomum enda markmiðið að viðhalda lestrarhæfni og kynna ævintýraheim bóka fyrir börnunum. Þó svo að formlegum viðburðum Sumarlesturs sé lokið þá eru öll börn í sveitarfélaginu hvött til að vera dugleg að lesa í allt sumar og hjálpa til við að skreyta tréð í barnadeild safnsins með lestrarmiðalaufblöðum.
Takk innilega fyrir samveruna þið öll sem voruð með okkur júní og við hlökkum til að sjá ykkur í allt sumar.
Kveðja,
starfsfólk Bókasafns Árborgar, Selfossi