Vel sóttur fræðsludagur
Föstudaginn 18. ágúst var haldinn fræðsludagur fjölskyldusviðs Árborgar í Sunnulækjarskóla.
Lítum okkur nær
Dagurinn bar nafnið ,,Lítum okkur nær“ og var það skýrskotun í að vinnustofur og fræðsluerindi voru haldin af starfsfólki sveitarfélagsins enda mikill mannauður starfandi á fjölskyldusviði.
Starfræktur var þverfaglegur undirbúningshópur sem sá um skipulag á fræðsludeginum undir verkstjórn Margrétar Bjarkar Brynhildardóttur deildarstjóra skólaþjónustu.
Allir starfsmenn leik- og grunnskóla ásamt starfsfólki frístunda-, skóla- og velferðarþjónustu tóku þátt í færðsludeginum og voru samankomin um 550 manns sem starfa með börnum og ungmennum á fjölskyldusviði.
Fræðsluerindi og vinnustofur
Dagskrá dagsins var samansett af fræðsluerindum og vinnustofum þar sem starfsfólk gat valið sér viðfangsefni til þess að dýpka þekkingu sína.
Starfsfólk leikskóla vann að þróunarverkefninu Hvernig má styðja við farsæld barna í leikskóla sem styrkt er af Sprotasjóði.
Á fræðsludeginum fór Heiða Ösp Kristjánsdóttir sviðsstjóri yfir stefnur og málefni fjölskyldusviðs, Berglind Harðardóttir mannauðsstjóri sveitarfélagins ásamt EKKO teyminu fór yfir EKKO stefnu sveitarfélagsins og vinnustaðarmenningu.
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra fjallaði um farsæld barna ásamt Önnu Tryggvadóttur skrifstofustjóra í mennta- og barnamálaráðuneytinu en Árborg er eitt af fimm frumkvöðlasveitarfélögum á landinu í innleiðingu farsældarlaganna.
Sigríður Hulda Jónsdóttir ræddi um árangur og lífsgæði, þar sem veitt var gott veganest fyrir starfsfólk inn í veturinn. Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri lokaði deginum.
Mikil ánægja var með daginn og er stefnt að því að gera hann að árlegum viðburði á fjölskyldusviði við upphaf skólaárs.