Viska og velferð í Árborg
Fræðsludagur fjölskyldusviðs, Viska og Velferð í Árborg, var þétt setinn þar sem um 600 starfsmenn sveitarfélagsins tóku þátt.
Þriðjudaginn 20. ágúst 2024 var haldinn fræðsludagur fjölskyldusviðs Árborgar í Sunnulækjarskóla þar sem starfsfólk leik- og grunnskóla, starfsfólk frístundarþjónustu, skólaþjónustu og velferðarþjónustu sem vinna með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu komu saman.
Fræðsludagurinn bar nafnið Viska og Velferð í Árborg og sóttu um 600 starfsmenn ráðstefnuna. Ráðstefnustjóri var Sigþrúður Birta Jónsdóttir deildarstjóri velferðarþjónustu og í upphafi dagsins voru kynntar voru áherslur fjölskyldusviðs skólaárið 2024 - 2025 af Heiðu Ösp Kristjánsdóttur sviðsstjóra fjölskyldusviðs.
Menntastefna Árborgar kom út þennan dag og var hún kynnt ásamt innleiðingu á henni. Menntastefna gildi til ársins 2030 og var hún unnin í víðtæku samstarfi nemenda, starfsmanna og annara hagsmunaaðila. Mannauðsstefna sveitarfélagins var einnig kynnt en hún kom út í upphafi árs.
Kynnt var verkefnið Öruggara Suðurland og forvarnarstarf lögreglunnar af Arndísi Soffíu Sigurðardóttur aðallögfræðingi og lögreglustjóranum á Suðurlandi auk þess sem starfsfólk fékk fræðslu um hinseginleikann.
Starfsfólk gat valið úr hinum ýmsu fræðsluerindum og voru flest þeirra flutt af samstarfsfólki þar sem lögð var áhersla á að nýta þann gríðarlega öfluga mannauð sem starfar hjá sveitarfélaginu.
Anna Steinsen frá Kvan flutti frábæran fyrirlestur um Jákvæð samskipti á milli kynslóða. Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarksráðherra fjallaði um samfélög fyrir okkur öll og Bragi Bjarnason bæjarstjóri lokaði deginum.