Deiliskipulagsbreytingar
Samkvæmt 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru kynntar tillögur eftirfarandi deiliskipulagsbreytinga:
1. Skátafélagið Fossbúar - Deiliskipulag - Félags- og útivistarsvæði
Bæjarstjórn Árborgar samþykkti þann 17.9.2025 tillögu að nýju deiliskipulagi sem tekur til hluta opins svæðis OP1 skv. aðalskipulagi Árborgar 2020-2036. Í deiliskipulaginu felst afmörkun útivistarsvæðis sem Skátafélagið Fossbúar munu hafa til afnota. Innan tillögunnar er afmarkað svæði þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu húsnæðis sem hýsir skátastarf í Árborg og að auki er afmarkað útivistarsvæði sem nýtist jafnt sem opið svæði fyrir almenning og starfsemi skátafélagsins.
Markmið tillögunnar er m.a. að nýta þá innviði sem svæðið hefur upp á að bjóða eins og bílastæði og gönguleiðir. Nýta þann gróður sem fyrir er og efla hann til muna með gróðursetningu nýrra plantna. Koma fyrir svæði sem nýtast má skólabörnum yfir veturinn til leikja og fræðslu. Koma fyrir litlum opnum húsum sem hýsa grillaðstöðu og fyrir útikennslu barna auk þess sem gert er ráð fyrir góðri tengingu við önnur opin svæði í næsta nágrenni.
2. Tryggvagata 36 - Deiliskipulagsbreyting
Bæjarstjórn Árborgar samþykkti þann 17.9.2025 tillögu deiliskipulagsbreytingar sem tekur til lóðar Tryggvagötu 36. Í breytingunni felst breytt notkun á svæðinu úr leikskóla í íbúðarhúsnæði. Skilgreindir eru byggingarreitir, hæðir húsa, hámarksbyggingarmagn, svæði undir bílastæði á lóð og nýr göngustígur sem liggur meðfram lóðinni. Lóðamörk haldast óbreytt. Á lóðinni er gert er ráð fyrir einu 3ja hæða fjölbýlishúsi ásamt skýli fyrir hjóla- og sorpgeymslu. Ekki er gert ráð fyrir kjallara undir húsum.
Gert er ráð fyrir að þriðja hæð hússins verði inndregin a.m.k. um 3 m á langhlið og 2 m á skammhliðar. Heildarfjöldi íbúða í húsinu geta orðið allt að 40. Heildarbyggingarmagn er að hámarki 3.000 m2 og nýtingarhlutfall er um 0,97.
Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kynnt niðurstaða bæjarstjórnar vegna eftirfarandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi:
3. Opin svæði OP1 - Óveruleg breyting á aðalskipulagi - Skátasvæði
Bæjarstjórn Árborgar samþykkti þann 17.9.2025 tillögu óverulegrar breytingar á aðalskipulagi Árborgar 2020-2036 sem tekur til OP1 opinna svæða. Í breytingunni felst að skilgreint er aukið byggingarmagn á svæði sem ætlar er sem aðstaða fyrir skátana. Samhliða er unnið að gerð deiliskipulags sem tekur til viðkomandi svæðis.
Fylgiskjöl:
Tryggvagata-36-uppdrattur-tillaga
Adalskipulag-Sveitarfelagsins-Arborgar-overuleg-breyting-vegna-OP1.docx