Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


20. júní 2024

Eyravegur 42 - 44. - Deiliskipulag verslunar- og þjónustu auk íbúðabyggðar

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er auglýst eftirfarandi deiliskipulagstillaga:

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum 12.6.2024, að auglýsa á ný tillögu að nýju deiliskipulagi verslunar- og þjónustu, auk íbúðabyggðar á lóðunum Eyravegur 42 og 44 á Selfossi. 

Tillagan var auglýst frá 20.12.2023 til og með 31.01.2024. Umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands og Vegagerðinni. Vegagerðin gerði athugasemd við tillöguna þar sem ekki var fallist á nýja aðkomu inn á lóð 44 við Eyraveg. Ný og breytt tillaga hefur nú verið lögð fram sem gerir ráð fyrir að aðkoma að lóð 44 verði frá Fossvegi. Þá hefur uppstillingu byggingarklasa fyrir lóð 44 einnig verið snúið við.

Svæðið er skilgreint í aðalskipulagi Árborgar 2020 - 2036 sem miðsvæði, þar sem skuli vera blanda af verslunar-, þjónustu- og íbúðarsvæði. Helstu markmið tillögunnar að þétta núverandi byggð með nýtingu á lóðum sem nýttar hafa verið sem verslunar- og lagersvæði. Tillagan tekur til breytinga á núverandi notkun lóðanna 42 og 44 við Eyraveg. Lóðirnar hafa í áranna rás verið nýttar undir starfsemi byggingarvöruverslunar. 

Í tillögunni er gert ráð fyrir að verslunarstarfsemi verði á lóð 42, og hluti núverandi bygginga verði rifinn og fjarlægður. Á norðausturhluta lóðar 42, tengt verslunarhluta, er gert ráð fyrir rafhleðslustöðvum fyrir bifreiðar. 

Á byggingarreit F1, á Eyravegi 44 er gert ráð fyrir að rísi íbúðarhúsnæði á 3 - 5 hæðum. Gert er ráð fyrir að á lóðinni verði rými fyrir allt að 65-75 íbúðir, með nýtingarhlutfalli allt að 1,1. Tillagan gerir ráð fyrir að heimilt verði að byggja bílakjallara. Þá er gert ráð fyrir að lóðirnar 44 og 44a á Eyravegi verði sameinaðar í eina lóð. 

Ofangreind skipulagstillaga liggur frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Austurvegi 67, Selfossi. Að auki er hægt að nálgast tillöguna á slóðinni www.skipulagsgatt.is.

Skipulagstillagan er auglýst með athugasemdafresti frá 19. júní 2024 til og með 31. júlí 2024.

Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna, og er frestur til að skila inn athugasemdum til og með 10. júlí 2024.

Athugasemdum og ábendingum skal skila skriflega á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Austurvegi 67, 800 Selfossi, eða netfangið www.skipulag@arborg.is.

Í samræmi við 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er ákvörðun stjórnvalds kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um gildistöku skipulags í B-deild Stjórnartíðinda.

Virðingarfyllst
Rúnar Guðmundsson, skipulagsfulltrúi


Þetta vefsvæði byggir á Eplica