Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


19. september 2024

Eyravegur 42 - 44. - Deiliskipulag verslunar- og þjónustu auk íbúðabyggðar

Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er auglýst niðurstaða Bæjarstjórnar Árborgar, vegna athugasemda við eftirfarandi deiliskipulagstillögu:

Bókun Bæjarstjórnar Árborgar 4. 9. 2024:

Afgreiðslu málsins var frestað á 43. fundi bæjarstjórnar. Tillaga frá 33. fundi skipulagsnefndar frá 28. ágúst sl. liður 5. Eyravegur 42 - 44. - Deiliskipulag verslunar- og þjónustu auk íbúðabyggðar. Lögð er fram að nýju eftir auglýsingartíma breytt deiliskipulagstillaga fyrir lóðirnar Eyraveg 42 - 44 á Selfossi. 

Tillagan hefur verið til meðferðar hjá Sveitarfélaginu Árborg, og var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 29.11.2023. Tillagan var fyrst auglýst frá 20.12.2023 með athugasemdafresti til 31.1.2024. Engar athugasemdir bárust á þeim tíma. Umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands og Vegagerðinni. Vegagerðin gerði athugasemd við tillöguna í umsögn Vegagerðarinnar dags. 9.1.2023, þar sem ekki var fallist á nýja aðkomu inn á lóð 44 við Eyraveg. Í kjölfarið var breytt tillaga lögð fram sem gerir ráð fyrir að aðkoma að lóð 44 verði frá Fossvegi. Þá hafði uppstillingu byggingarklasa fyrir lóð 44 verið snúið við, þannig að opið svæði innan lóðar snúi að Eyravegi. Tillagan var í framhaldi auglýst á ný frá 19.06.2024 til 31.07.2024. Engar athugasemdir bárust. Umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands og Vegagerðinni. Vegagerðin gerði athugasemd við tillöguna með bréfi dags. 18.7.2024, sem bendir á fyrri umsögn Vegagerðar frá 09.01.2024, þar sem fjallað er um aðkomur af Eyrarbakkavegi og leggur Vegagerðin til að syðri aðkoma að Eyrarvegi 42 verði lögð af. Tillagan er lögð fyrir skipulagsnefnd að nýju, þar sem villa var í bókun fundar skipulagsnefndar 14. 8. 2024.

Skipulagsnefnd hefur komið til móts við fyrri athugasemdir Vegagerðarinnar og fært aðkomu að Eyravegi 44 inn á Fossveg. Nefndin telur að athugasemdir í umsögn Vegagerðarinnar dags. 18.7.2024 muni rýra verulega gæði lóðarinnar Eyravegur 42. Við lóðina hafa í gegnum tíðina verið tvær aðkomur og hafa þær þjónað vel tilgangi verslunar á lóðinni. Skipulagsnefnd telur að með því að hafa einungis útakstur af syðri aðkomu muni það bæta umferðarflæði frá lóð og auka öryggi. Skipulagsnefnd samþykkir fyrir sitt leyti auglýsta tillögu að deiliskipulagi og mælist til að bæjarstjórn Árborgar samþykki tillöguna, og feli skipulagsfulltrúa að senda skipulagsstofnun tillöguna til afgreiðslu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga og auglýsa niðurstöðu Bæjarstjórnar Árborgar skv. 3. mgr. 41. gr. sömu laga.

Til máls tóku: Bragi Bjarnason, bæjarfulltrúi D-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista Bæjarstjórn Árborgar þakkar ábendinguna frá Vegagerðinni. Komið var til móts við fyrri athugasemdir Vegagerðarinnar og aðkoma að Eyravegi 44 færð inn á Fossveg. 
Í uppfærðum deiliskipulagsútdrætti hefur verið tekið tillit til athugasemda Vegargerðarinnar og sett inn að syðri tengingin við Eyraveg 42 leyfi einungis útakstur.
Bæjarstjórn Árborgar telur að með því sé komið til móts við athugasemdir í umsögn Vegagerðarinnar dags. 18.7.2024 enda hafi í gegnum tíðina verið tvær tengingar og hafa þær þjónað vel tilgangi verslunar á lóðinni.
Bæjarstjórn samþykkir auglýsta tillögu að deiliskipulagi í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og felur skipulagsfulltrúa að senda skipulagsstofnun tillöguna til afgreiðslu í samræmi við 42. gr. skipulagslaga og auglýsa niðurstöðu Bæjarstjórnar Árborgar skv. 3. mgr. 41. gr. sömu laga. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.

Í samræmi við 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er ákvörðun stjórnvalds kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um gildistöku skipulags í B-deild Stjórnartíðinda.

Virðingarfyllst
Rúnar Guðmundsson, skipulagsfulltrúi


Þetta vefsvæði byggir á Eplica