Stjörnusteinar 7 og Heiðarbrún 2-8b - Deiliskipulag íbúðargötu 2301231
Í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst niðurstaða Bæjarstjórnar Árborgar frá fundi dags. 18.6.2025:
Tillaga frá 46. fundi skipulagsnefndar frá 11. júní sl. liður 5. Stjörnusteinar 7 og Heiðarbrún 2-8b - Deiliskipulag íbúðargötu.
Lagt er fram að lokinni auglýsingu deiliskipulag fyrir íbúðarhúsagötuna Stjörnusteina 7 og Heiðarbrún 2-8b á Stokkseyri. Skipulagsnefnd Árborgar hefur um nokkurt skeið horft til þess að reyna að þétta byggð, þar sem þess er nokkur kostur. Hefur verið horft sérstaklega til auðra lóða sem hafa staðið þannig árum og áratugum saman í þegar byggðum hverfum. Nefndin telur að það sé ávinningur fyrir Sveitarfélagið Árborg, að það séu byggð hús á lóðunum, innan um önnur íbúðarhús, og myndist þá heildstæð götumynd á hverju svæði fyrir sig. Meginmarkmið deiliskipulagstillögunnar er að gera deiliskipulag fyrir götulínuna á fyrrgreindum lóðum, Stjörnusteinar 2 og lóðirnar Heiðarbrún 2-8b, á Stokkseyri.
Deiliskipulagstillagan er í samræmi við Aðalskipulag Árborgar 2020-2036. Fyrir er í gildi (B-deild stjórnartíðinda 17.3.2023) deiliskipulag fyrir lóðina Heiðarbrún 6-6a, og mun það falla úr gildi við gildistöku nýs deiliskipulags. Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaði og Dagskránni frá 13.2.2025 með athugasemdafresti til 27.3.2025. Þá var tillagan aðgengileg á heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar. Athugasemdir bárust frá íbúum við Heiðarbrún 2 og Heiðarbrún 8. Skipulagsnefnd hefur farið yfir athugasemdir, og hefur sett saman í samantektarskjali viðbrögð við athugasemdum, sem mun fylgja með öðrum gögnum tillögunnar og verða send Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Skipulagsnefnd áréttar að það sé ávinningur í að þétta byggð og gera eins heildstæða götumyndir og hægt er, þar sem því er viðkomið. Skipulagsnefnd samþykkir fyrir sitt leyti tillöguna í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr.123/2010, og mælist til að bæjarstjórn Árborgar samþykki tillöguna í samræmi við 41. gr. sömu laga. Gerðar hafa verið lagfæringar á uppdrætti í samræmi við samantektarblað með svörum og viðbrögðum nefndarinnar.
Til máls tekur Bragi Bjarnason, D-lista. Bæjarstjórn Árborgar hefur farið yfir athugasemdir, og er sammála viðbrögðum skipulagsnefndar við athugasemdum. Gerðar hafa verið lagfæringar á uppdrætti í samræmi við samantektarblað með svörum og viðbrögðum nefndarinnar. Bæjarstjórn tekur undir með skipulagsnefnd og áréttar að það sé ávinningur í að þétta byggð og gera eins heildstæða götumyndir og hægt er, þar sem því er viðkomið. Bæjarstjórn samþykkir samhljóða með 11 atkvæðum tillöguna í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr.123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að senda Skipulagsstofnun tillöguna til afgreiðslu í samræmi við skipulagslög.
Í samræmi við 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er ákvörðun stjórnvalds kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um gildistöku skipulags í B-deild Stjórnartíðinda.
Virðingarfyllst,
Vigfús Þór Hróbjartsson skipulagsfulltrúi