Í krafti okkar allra – samtalsfundur fyrir foreldra í 5.–10. bekk í Árborg
Á síðustu misserum hefur orðið vart við aukna áhættuhegðun meðal barna og ungmenna í Árborg. Við sjáum merki um breytingar í samskiptum, hegðun og líðan, þróun sem vekur áhyggjur meðal foreldra, skólasamfélags og þeirra sem starfa með börnum og unglingum.
En við spyrjum líka: Hvað veldur þessari þróun? Eru áhrif netsamskipta og stöðugs áreitis meiri en áður? Hefur samveran minnkað eða rýmið fyrir róleg tengsl breyst? Líklega er ekkert eitt sem skýrir stöðuna, en við getum haft áhrif saman.
Í ágúst hélt fjölskyldusvið Árborgar fræðsludag undir yfirskriftinni „Í krafti okkar allra“ þar sem fagfólk á fjölskyldusviði Árborgar, sem vinnur með börnum í Sveitarfélaginu Árborg, fékk margvíslega fræðslu og kynningar.
Nú er röðin komin að foreldrum og samfélaginu í heild. Við ætlum að hittast, fræðast, ræða opinskátt og efla samstarfið sem skiptir öllu máli þegar börn eru annars vegar.
Kjarni fundarins er daglegt líf og tengsl – hvernig við sem foreldrar getum verið sýnileg og til staðar, spurt og hlustað. Það felst í því að sýna forvitni um vini, áhugamál og netheim barna, ekki til að hafa eftirlit heldur til að mynda traust og skilning. Skýr mörk og hlý sambönd fara saman. Einfaldar venjur, eins og kvöldmatur, göngutúr eða stutt stund á sófanum, geta orðið sterkustu forvarnirnar.
Einnig er mikilvægt að gott samtal sé á milli foreldra. Þegar við tölum saman um það sem við sjáum og heyrum – hvar börnin hittast, hverjir eru í vinahópnum, hvað er í gangi á samfélagsmiðlum og hvaða reglur gilda á heimilunum – eflum við sameiginleg viðmið og öryggi. Slíkt samtal byggir á virðingu og trúnaði en hjálpar okkur líka að bregðast fyrr og rétt við þegar eitthvað bjátar á. Þegar foreldrar þekkja hvert annað og treysta hvert öðru verða skilaboðin til barnanna skýr: Við erum fullorðin og stöndum saman.
Heimili, skóli og sveitarfélag mynda eina ábyrga heild þar sem hvert hlutverk styður næsta. Þegar þessi hringur lokast – þegar við tölum saman, deilum og samstillum væntingar – verður heildarmyndin sterkari en nokkur þáttur einn og sér.
Á fundinum rýnum við í þessar leiðir: hvernig við getum ræktað tengsl, talað saman, byggt upp gott samstarf milli aðila og staðið með börnunum þegar þau takast á við áskoranir. Hvernig við getum verið „afskiptasöm á jákvæðan hátt“, sýnt hlýju og ákveðni í senn og sent skýr skilaboð um öryggi, virðingu og ábyrgð. Í krafti okkar allra breytum við andrúmsloftinu, mótum væntingar og búum til umhverfi þar sem börn og ungmenni geta dafnað, með trausti, samstöðu og samvinnu að leiðarljósi.
