Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Eyrarbakki

Nafn Eyrarbakka er nátengt siglingum og viðskiptum sunnlendinga við umheiminn. Að fornu var nafnið Eyrar samheiti um alla strandlengjuna frá Ölfusá að Þjórsá. Á 14. öld fær þetta sama svæði nýtt nafn, Eyrarbakki. Það er ekki fyrr en á 19. öld sem merkingin þrengist og það tekur eingöngu til þéttbýlisins vestur undir Ölfusá.

Í íslenskum fornritum er hafskipa oftar getið á Eyrum en á nokkrum öðrum stað á landinu. Á fyrstu öldum byggðar í landinu var þar ein af mörgum höfnum Suðurlands. Frá um 1100 fær höfnin aukna þýðingu og verður helsta höfn á Suðurlandi frá því og allt fram að síðari heimstyrjöld.

Mikilvægi Eyrarbakka í sögu þjóðarinnar byggir á höfninni. Nokkur dæmi skulu um það nefnd. Farmaðurinn Bjarni Herjólfsson var frá bænum Drepstokki á Eyrarbakka, bæ vestur við Ölfusá. Hann sigldi frá Eyrarbakka fyrir um það bil 1000 árum í kjölfar föður síns, sem hafði fylgt Eiríki rauða til Grænlands. Bjarni og menn hann lentu í hafvillum og sigldu í vesturátt sunnan við Grænland þar til þeir fundu land, sem var meginland Norður-Ameríku. Bjarni varð fyrstur Evrópumanna til þess að finna hin miklu lönd í vestri og vísaði hann Leifi Eiríkssyni leiðina, en Leifur sigldi í kjölfar hans nokkrum árum seinna. Höfn biskupsstólsins í Skálholti var á Eyrarbakka. Öll utanríkisverslun vegna staðarhalds og kirkjubygginga á biskupsstólnum fóru því um Eyrarbakka. Jafnvel viðum til fyrstu dómkirkju á biskupssetri norðlendinga á Hólum í Hjaltadal var skipað upp á Eyrarbakka. Á miðöldum var þriðjungi af konungstolli skipað út frá Eyrarbakka.

Vegna umfangs viðskipta og verslunar á Eyrarbakka á miðöldum telja sagnfræðingar að sá staður hafi öðrum fremur hérlendis haft burði til þess að þar myndaðist þéttbýlisstaður eða bær. En það varð bið á þéttbýlismyndun á Eyrarbakka, sem annars staðar á Íslandi, þar til á 19. öld. Eyrarbakki hélt samt stöðu sinni sem helsti verslunarstaður á Suðurlandi og um leið og erlendir kaupmenn fengu leyfi til fastrar búsetu hér á landi allt árið byggðu þeir sér íbúðarhús á Eyrarbakka árið 1765. Flutt voru inn 10 dönsk katalog-hús og byggð á ýmsum stöðum á landinu. Aðeins tvö þeirra standa enn, Faktorshúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði og Húsið á Eyrarbakka. Nafngift þess, Húsið, segir sína sögu um húsakost landsmanna á fyrri öldum.

Blómatími Eyrarbakka var frá miðri 19. öld og á fyrstu áratugum 20. aldar. Þá myndaðist þéttbýliskjarni umhverfis hús dönsku verslunarinnar og íbúum fjölgaði ört. Flestir urðu þeir um 1920 tæplega 1000 manns, en fækkaði upp úr því og hefur íbúatalan verið um 530-550 manns hin síðari ár. Þegar skipin stækkuðu völdu skipstjórnarmenn frekar að sigla fyrir Reykjanes til Reykjavíkur, vegna þess að þar var höfnin betri. Stundum þurftu skipin að liggja fyrir utan Eyrarbakka svo dögum og vikum skipti og bíða eftir því að veður og brim lægði, svo hægt væri að sigla inn á Eyrarbakkahöfn. Flest kaupskipanna sem sigldu frá Danmörku til Eyrarbakka á síðari tímum komu frá bænum Marstal á eyjunni Ærø. Mörg þeirra komu oft á ári, ár eftir ár.

Tvennt varð forsenda þéttbýlismyndunar á Eyrarbakka á seinni hluta 19. aldar, aukin útgerð áraskipa og tilkoma stéttar iðnaðarmanna í ýmsum iðngreinum. Auk þess stóð rekstur dönsku verslunarinnar með blóma og innlend verslun komst á legg.

Samhliða auknu þéttbýli varð mikill uppgangur í menningar- og félagsmálum. Árið 1852 var stofnaður barnaskóli á Eyrarbakka. Starfar hann enn og er elsti barnaskóli á landinu sem hefur starfað samfleytt frá stofnun. Tónlistarlíf var gróskumikið og gegndi fjölskylda verslunarstjórans í Húsinu þar forystuhlutverki. Eyrarbakkakirkja var byggð og vígð árið 1890. Merkasti kirkjugripurinn er altaristaflan, sem er máluð af Louise drottningu Kristjáns konungs IX. danakonungs. Drottningin gaf kirkjunni töfluna og er nafn hennar á henni og ártalið 1891. Louise drottning var listfeng í besta lagi og er kunnugt um altaristöflur eftir hana í þremur kirkjum í Danmörku, í kirkjunum í Gentofte, Klitmøller og Lundø.

Á árunum eftir síðust aldamót dvaldi á Eyrarbakka mörg sumur danski myndhöggvarinn Agnes Lunn frá Knabstrup. Hún var í vinfengi við dönsku kaupsmannsfjölskylduna í Húsinu. Agnes Lunn málaði myndir og mótaði myndir í gifs af íslenskum hestum, en bændurnir sem fjölmenntu í kaupstaðinn voru með marga hesta með sér. Agnes Lunn sérhæfði sig í hestamyndum og því var kjörið tækifæri fyrir hana að sitja við verslunarhúsin og fylgjast með hestunum þar. Talið er að Agnes Lunn hafi haft sterk áhrif á ungan dreng á Eyrarbakka, Sigurjón Ólafsson, sem síðar varð þekktur myndhöggvari í Danmörku og á Íslandi. Sigurjón var fæddur á Eyrarbakka og ólst þar upp. Verk eftir hann eru í söfnum á Íslandi og Danmörku, en einnig á Eyrarbakka og á ráðhústorginu í Vejle á Jótlandi.

Mjög gestkvæmt var í kaupmannshúsinu. Þekktir einstaklingar, innlendir og erlendir, gistu þar í lengri eða skemmri tíma. Auk Agnes Lunn má nefna dönsku skáldkonuna og kvenréttindakonuna Thit Jensen, sem kom þar nokkrum sinnum á fyrri hluta aldarinnar. Thit Jensen orti ljóð meðan hún dvaldi í Húsinu og er það birt hér aftan við.

Á Eyrarbakka hafa öldum saman orðið mikil sjávarflóð og valdið verulegu tjóni á mannvirkjum og fénaði, en aðeins einn maður hefur farist í sjávarflóðum þessum og var það í flóði 1652. Verslunareigendur byggðu fyrstu sjóvarnargarðana þegar árið 1788 og öflugri garða síðan eftir svokallað Stóraflóð árið 1799 til þess að verja hús sín. Enn sjást leifar þessara sjóvarnargarða framan við Húsið og framan við þann stað, sem verslunarhúsin stóðu, en þau voru rifin árið 1950. Eftir sjávarflóð 1990 voru gerðir öflugir sjóvarnargarðar framan við alla byggð á Eyrarbakka.

Eyrarbakki var lengst af verslunarstaður og útgerðarstöð, en hin síðari ár hefur atvinna þorpsbúa verið fyrst og fremst við þjónustustörf margs konar og iðnað. Mikilvægi sjávarútvegs fyrir afkomu íbúanna hefur minnkað á undanförnum árum og höfn var aflögð árið 1988, þegar ný brú á Ölfusárósa var tekin í notkun. Á Eyrarbakka er rekin álpönnuverksmiðja, sem framleiðir potta og pönnur fyrst og fremst til útflutnings. Þá er ríkisfangelsið á Litla-Hrauni staðsett á Eyrarbakka og hafa þar margir þorpsbúar atvinnu. Fjölmennur hópur manna sækir vinnu í nágrannasveitarfélögin, t.d. Selfoss og Þorlákshöfn, og þó nokkrir íbúar á Eyrarbakka vinna í Reykjavík.

Á Eyrarbakka eru tvö söfn. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka er rekið af Árborg og þar er merkasti safngripurinn áraskipið Farsæll, sem stendur þar inni með rá og reiða. Þá eru í safninu margt muna og minja sem tengjast sjósókn og fiskverkun á Eyrarbakka og í verstöðvunum í nágrenninu. Byggðasafn Árnesinga í Húsinu er rekið af Héraðsnefnd Árnesinga. Má segja að Húsið og Assistentahúsið séu merkustu safngripirnir, en í húsunum hafa verið settar upp sýningar um sögu Hússins og fólksins sem þarf starfaði og bjó, einnig um sögu verslunar á Eyrarbakka og ýmsir munir tengdir sögu Árnessýslu og Árnesinga.

Eyrarbakkahreppur var stofnaður sem sérstakt sveitarfélag 18. maí 1897, en í atkvæðagreiðslu í febrúar 1998 var samþykkt að sameina sveitarfélagið þremur öðrum sveitarfélögum á svæðinu. 

Frá og með 7. júní 1998 var Eyrarbakki því hluti af nýju sveitarfélagi.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica