Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Stokkseyri

Stokkseyrarhreppur er hluti af landsvæði sem almennt er kallað Flói og liggur í neðsta hluta Árnessýslu. Stokkseyrarhreppur var aldagamalt sveitarfélag en árið 1897 klauf Eyrarbakki sig út úr hreppnum og varð sérstakt sveitarfélag.

Frá 1897 til 1998 hafa mörk Stokkseyrarhrepps verið þau sömu, en sveitarfélagið náði yfir jörðina Stokkseyri og nærliggjandi býli þar sem stundaður hefur verið landbúnaður. Að vestri hlið lá hreppurinn að Eyrarbakkahreppi og að Sandvíkurhreppi að norðan en þessi þrjú sveitarfélög, ásamt Selfossbæ, voru sameinuð í Sveitarfélagið Árborg 1998. Austan við Stokkseyrarhrepp liggur Gaulverjabæjarhreppur.

Stokkseyrarhreppur stendur á hrauni sem kennt hefur verið við Þjórsá eða Tungná. Það er talið um 8000 ára gamalt. Hraunið myndar 400 til 700 metra breiðan skerjagarð frá Ölfusá í vestri að Baugsstöðum í austri. Í skerjagarðinum skiptast á sker og flúðir, lón og rásir, skerjagarðurinn er á Náttúruminjaskrá. Í ytri hluta hreppsins er víðáttumikil og allt að því kennileitalaus mýri, Breiðamýri, sem teygir sig þvert yfir Stokkseyrarhrepp, Eyrarbakkahrepp og Sandvíkurhrepp vestur að Ölfusá. Þar voru grafnir fjöldi skurða á tímum Flóaáveitunnar sem setja stóran svip á svæðið en vegna hennar hafa mörg feskvatnsvötn í Stokkseyrarhreppi orðið rauðbrún sökum mýrarauða. Strandlengja Stokkseyrarhrepps er um 8 km að lengd, frá Hraunárósi í vestri að Baugsstaðarsíki í austri. Sjávarkamburinn er yfirleitt 6-9 metra yfir stórstraumsfjöru.

Á jörðinni Stokkseyri, og hjáleigum hennar, hefur byggst upp þéttbýli síðustu 120 ár. Meginbyggðin stendur á móbergsbelti sem gengur þvert yfir hreppinn raunar um þvert Suðurland allt frá Ægissíðu. Landrýmið einkennist af móbergsbölum og holtum með mýrarsundum, dælum (tjörnum) og vötnum inn á milli. Megnið af byggilegu landi í hreppnum er á þessu svæði.

Þéttbýlið Stokkseyri er takmarkað bæði að sunnanverðu og norðanverðu af náttúrufræðilegum aðstæðum. Byggðin stendur á lágri malaröldu sem er víða ekki breiðari en 300 metra. Norðan malaröldunnar stendur land nokkru lægra og er votlendi. Að sunnan, úti fyrir ströndinni er nær samfelldur skerjagarður og eru hafnaskilyrði þessvegna mjög erfið. Skerin fara í kaf í flóði en þegar alda vex brýtur á þeim. Lægi er innan skerjanna en það er hættusöm sigling á mjóum sundum sem er fljót að verða ófær ef sjór versnar. Byggð á ströndinni milli Ölfusár og Þjórsár hefur frá alda öðli átt í vök að verjast fyrir ágangi sjávar en sjór brýtur þar land vegna stöðugt hækkandi sjávarstöðu.

Stokkseyri er landnámsjörð sem fyrst er getið í landnámabók og nefnd í Flóamannasögu. Landnámsmaður á Stokkseyri var Hásteinn Atlason norskur maður sonur Atla jarls hins mjóa af Gaulum. Kom hann um 900 til Íslands og skaut setstokkum sínum fyrir borð í hafi eins og Ingólfur Arnarson gerði við öndvegissúlur sínar 30 árum fyrr. Setstokkum Hásteins rak að landi þar sem nú er Stokkseyri og nam Hásteinn allt það land sem nú tilheyrir Stokkseyrarhreppi.

Á Stokkseyri hefur verið kirkja frá fornu fari og þingstaður hreppsins. Stokkseyri var sömuleiðis langstærsta jörðin í hreppnum eða um 60 hundruð eftir fornu mati. Sjö aðrar jarðir byggðust strax á landnáms- og söguöld innan Stokkseyrarhrepps. Þær voru Stjörnusteinar, Traðarholt, Baugsstaðir, Brattholt, Leiðólfsstaðir, Ásgautsstaðir og Hæringsstaðir. Á síðustu öldum hafa lögbýli verið 15 - 16 talsins, mörg þeirra voru tvíbýli en út frá þeim allmargar hjáleigur, grasbýli, þurrabúðir og/eða tómthús.

Á suðurströndinni voru helstu verstöðvar Loftsstaðir, Stokkseyri, Eyrarbakki, Þorlákshöfn og Selvogur. Útræði mun hafa tíðkast frá landnámstíð. Aðstaða til sjósóknar milli Ölfusár og Þjórsár hefur þó jafnan verið erfið sem veldur hinn hættulegi skerjagarður fyrir ströndinni svo að ekki var farið á sjó vegna brims ef eitthvað var að veðri. Greina heimildir frá mörgum skipssköðum og drukknunum frá Stokkseyri.

Sveiflur hafa verið í umfangi útvegs á Stokkseyri. Frekar lítið var róið frá Stokkseyri fram á 19. öld en Þorlákshöfn var þá aðal verstöðin á þessum slóðum. Upp úr 1787 verða þáttaskil. Þá hefst blómaskeið útvegs á Stokkseyri og stóð þá í hálfa öld. Þegar mest var réru 18 för árið 1826. Þetta var tímabil mikilla sjósóknara og var Þuríður formaður Einarsdóttir frá Stéttum í Hraunshverfi (1777-1863) einna þekktust fyrir útsjónarsemi og áræðni í sjómennsku. Einnig var ekki algengt að konur réru. Á þessu tímabili komu utanbæjarmenn til sjós frá Stokkseyri. Risu þá allmargar verbúðir upp fyrir sjómenn og er Þuríðarbúð dæmi um þessi híbýli sjómanna. Um 1833 varð afturkippur í útgerð á Stokkseyri og fækkaði skipum niður í 6 árið 1846.

Eftir 1858 lifnaði aftur yfir sjósókn og skipum fjölgaði á ný og náði hámarki á síðasta áratug 19. aldar

  • Árið 1865 gengu 15 skip frá Stokkseyri
  • Árið 1874 gengu 20 skip frá Stokkseyri
  • Árið 1895 voru 36 skip sem gengu frá Stokkseyri
  • Um 1900 gengu 38 sexæringar frá Stokkseyri og 23 fjögramannaför

 Þessi ásókn í útræði frá Stokkseyri festi byggð í sessi því allmargir settust þá að í tómthúsmennsku en byggðin festist betur í sessi í kjölfar verslunarréttinda og svo aftur með tilkomu vélbátaútgerðar á fyrstu áratugum 20. aldar.

Fyrsti vélbáturinn var keyptur til Stokkseyrar árið 1904, 6 smálesta bátur Ingólfur sem smíðaður var að tilhlutan Ólafs kaupmanns Árnasonar. Á næstu árum fjölgaði vélbátum mjög og 1916 urðu þeir flestir, 17 talsins. Voru vélbátarnir í marga áratugi eitt helsta atvinnutæki byggðarinnar. Síðustu árin hafa Stokkseyringar róið frá Þorlákshöfn.

Stærsta fiskvinnslufyrirtækið á Stokkseyri er Hraðfrystihús Stokkseyrar sem sameinaðist 1988 Glettingi hf í Þorlákshöfn undir heitinu Árnes hf. Frystihúsið setur óneitanlega stóran svip á ásýnd Stokkseyrar en það er staðsett þar sem fyrrum stóðu bæjarhúsin á Stokkseyri og um skeið verslun Ólafs Árnasonar.

Sjóvarnargarðurinn var byggður af Grími Grímssyni árið 1890. Upphaflega var hann 100 faðma langur fram af Stokkseyrarkirkju og Stokkseyrarhúsunum. Hann hefur verið lengdur og endurbættur og liggur nú fyrir framan alla byggð þéttbýlisins á Stokkseyri. Þennan sjógarð má víða sjá við hliðina á voldugum grjótvarnargörðum sem byggðir voru upp eftir stórflóð árið 1990.

Hafnarskilyrði voru á Stokkseyri í erfiðasta lagi vegna mikils skerjagarðs. Stokkseyrarsund nefnist innsiglingin en skipalægið nefndist Blanda. Þar lét Grímur í Nesi setja niður skipsfestar árið 1891 fyrir lítil kaupskip og má segja að það hafi verið fyrsta hafnarbótin á Stokkseyri. Skömmu fyrir aldamótin 1900 var gerð uppskipunarbryggja fyrir verslanirnar á Stokkseyri. Síðar var höfnin endurbætt 1934 og 1955 og hafa hafnarbætur einkum fólgist í dýpkun innsiglingarinnar, uppsetningu sundmerkja og gerð bryggju. Höfnin hefur lítið verið notuð eftir tilkomu Óseyrarbrúarinnar.

Um aldaskeið var Eyrarbakki helsti verslunarstaður Suðurlands. Þangað sóttu sunnlenskir bændur verslun og lá leið bænda úr efri hluta Árnessýslu og úr eystri sýslunum um Stokkseyrarhlað. Þar má því segja að hafi geta snemma orðið grundvöllur fyrir verslun. En straumhvörf verða er Grímur Gíslason bóndi á Óseyrarnesi eignast Stokkseyrarjörðina árið 1880. Grímur ásamt Bjarna Pálssyni frá Syðra-Seli áttu mestan þátt í að Stokkseyri var löggiltur verslunarstaður en þeir beittu sér fyrir því að samþykkt voru á Alþingi 1883 lög um löggildingu verslunarréttinda fyrir Stokkseyri. Tóku þau gildi ári síðar.

Lögbinding verslunarréttinda á Stokkseyri er eflaust einn merkasti viðburður í sögu Stokkseyrar því með henni voru sköpuð skilyrði til athafnalífs eins og verslunar og útvegs og lagði þannig grundvöll að vexti og viðgangi þorpsins.

Fimm ár liðu frá löggildingu verslunarréttinda að fyrsti kaupmaðurinn tók þar til starfa. Ívar Sigurðsson varð fyrstur til að fá borgarabréf á Stokkeyri árið 1889. Til sölu í Verslun Ívars Sigurðssonar voru vörur eins og kaffi, sykur, tóbak brennivín og ýmsar smávörur sem hann keypti fyrir ýsu sem hann slægði, saltaði og seldi. Ívar hagnaðist talvert á versluninni og rak útgerð samhliða. Hann hætti verslunarrekstri þegar Stokkseyrarfélagið tók til starfa árið 1891 og gerðist afgreiðslumaður hjá því. Forveri Stokkseyrarfélagsins var fyrsta kaupfélagið sem bændur stofnuðu á Suðurlandi. Það var Kaupfélag Árnesinga sem stofnað var 1888 og starfaði upphaflega sem pöntunarfélag með höfuðstöðvar í Reykjavík. Bændur pöntuðu vörur og lofuðu ull, sauðum og hrossum í staðinn. Kaupfélag Árnesinga starfaði á tveimur stöðum frá 1891. Það rak verslun á Stokkseyri undir heitinu Stokkseyrarfélagið, en var með uppskipunarhöfn fyrir sauði í Reykjavík undir nafni Kaupfélags Árnesinga. Starfsemi þessara félaga hnignaði er tekið var fyrir sauðasölu til Bretlands árið 1896 en Stokkseyrarfélagið var starfrækt sem pöntunarfélag bænda undir verndarvæng Ólafs Árnasonar næstu áratugi.

Ólafur Árnason var umsvifamikill kaupmaður á Stokkseyri um langt skeið. Hann stofnaði verslun árið 1894 í skjóli Stokkseyrarfélagsins í fyrstu en sá svo um pantanir þess síðustu árin. Á fyrstu árum 20. aldar var verslun Ólafs Árnasonar með þeim stærri á Suðurlandi enda verslunarhættir með því laginu að vörur voru staðgreiddar og því á lægra verði. Að hætti stórkaupmanna gaf verslun Ólafs Árnasonar út eigin mynt með 10 aurum og 25 aurum í skiptum fyrir vörur. Árið 1907 stóð Ólafur að stofnun kaupfélagsins Ingólfs ásamt bændum einkum úr Rangárvallasýslu. Kaupfélagið Ingólfur rak mikla verslun fram yfir 1918 með útibúi á Eyrarbakka en starfsemin lognaðist útaf 1923.

Eftir fyrri heimstyrjöldina dró úr verslun á Stokkseyri. Ýmsar ástæður lágu þar að baki, einkum bættar samgöngur við Reykjavík og bifreiðasamgöngur, efling Reykjavíkur sem útskipunarhafnar, breyttar áherslur í landbúnaði, og að lokum stofnun samvinnufyrirtækja sunnlenskra bænda við Ölfusárbrú í kringum 1930. Svipuð þróun varð um svipað leyti á Eyrarbakka.

Síðustu áratugi hafa ýmsar verslanir verið reknar á Stokkseyri um lengri eða skemmri tíma og hafa einkum þjónað íbúum Stokkseyrar. Merkust þeirra var pöntunarfélag sem rekið var við rjómabúið á Baugsstöðum. Í dag er Kaupfélag Árnesinga með verslun á Stokkseyri. Einnig er þar söluskáli Skeljungs. Landsbanki Íslands, Landssíminn og Íslandspóstur reka útibú á staðnum.

Um langan aldur stóðu Stokkseyringar framarlega um söngmennt og tónlist miðað það sem almennt tíðkaðist hér á landi. Má rekja þessa menningu til afkomenda Bergs Sturlaugssonar í Brattsholti (1682-1765) sem var forfaðir tónskáldanna Ísólfs Pálssonar, Sigfúsar Einarssonar, Friðriks Bjarnasonar, Páls Ísólfsssonar, Hallgríms Helgasonar og Pálmars Þ. Eyjólfssonar. Bergur var fyrsti forsöngvari í Stokkseyrarkirkju sem nafngreindur hefur verið í langri nafnarunu forsöngvara síðan en margir þeirra voru taldir afburða söngmenn.

Fyrsta orgelið sem kom í Stokkseyrarkirkju var keypt fyrir samskotafé árið 1876 og kostaði það 400 krónur. Organistar við Stokkseyrarkirkju hafa allir verið af þessari fyrrnefndu tónlistarætt en fyrstur þeirra var Bjarni Pálsson í Götu sem lærði á orgel hjá ungrú Sylvíu Thorgrímsen í Húsinu á Eyrarbakka. Bjarni kenndi síðan mörgum að leika orgel og komu sumir nemendur hans langt að. Kenndi hann söng við barnaskólann var hinn ötulasti brautryðjandi um söngmennt og orgelkennslu í héraðinu. Bjarni æfði tvo kóra á Stokkseyri, barnaskólakór sem hann æfði í síðustu kennslustund dag hver í barnaskólanum. Karlakór æfði hann á kvöldin.

Bróðursonur Bjarna er sennilega einn þekktasti Stokkseyringur á 20. öld eða dr. Páll Ísólfsson dómorganisti og tónskáld (1893-1976). Páll kaus sér sumarbústað austast í þorpinu þar sem vel sést í Stokkseyrarbrimið og til fjalla. Nefnist sumarbústaðurinn Ísólfsskáli en húsið teiknaði Gunnar Hansson arkitekt. Í fjöruna sótti Páll Ísólfsson gjarnan innblástur í tónsmíðar sínar þegar vel heyrðist í briminu.

Síðustu áratugi hefur Pálmar Eyjólfsson gegnt starfi organista við Stokkseyrarkirkju. Árið 1999 hlaut Pálmar menningarverðlaun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir tónsmíðar og farsælt starf við Stokkseyrarkirkju.

Skólahald í Stokkseyrarhreppi hinum sameinaða hófst árið 1852 með skólahaldi á Eyrarbakka. Með vaxandi íbúabyggð á Stokkseyri varð stofnuð skóladeild en um stofnár hennar er ekki kunnugt. Strax á 6. áratugnum er getið skóladeildar á Stokkseyri en fyrst er þar sérstakur kennari árið 1878. Í fyrstu var skólahaldið í þinghúsi hreppsins en síðar í svokölluðum Götuskóla sem byggður var sumarið 1885. Árið 1909 var byggður nýr barnaskóli við Götuhús en frá 1950 hefur barnaskólinn verið starfræktur við Stjörnusteina. Árið 1998 var hann sameinaður barnaskólanum á Eyrarbakka og fer þar fram kennsla fimm yngri árganga nemenda á Stokkseyri og Eyrarbakka en eldri bekkjum er kennt á Eyrarbakka.

Það er fátt sem minnir nú á Stokkseyri gamla tímans. Á tímum bændasamfélagsins einkenndist byggðin á Stokkseyri af býlinu Stokkseyri og hjáleigum hennar. Um 1890 hefst myndun þéttbýlis á Stokkseyri og stóð það uppbyggingartímabil fram yfir 1930 þar sem bárujárnsklædd timburhús komu smátt og smátt í stað torfbæja. Annað uppbyggingartímabil verður í kringum 1960. Í dag einkennist húsaþyrpingin af blöndu gamalla og nýrri húsa. Yfir staðnum yfirgnæfir svo frystihúsið og við hlið þess Stokkseyrarkirkja. Upplýsingar um staðhætti og örnefni má sjá á útsýnisskífu sunnan kirkjugarðsins.

Í dag eru aðalatvinnuvegir Stokkseyringa tengdir útgerð og landbúnaði ásamt nokkrum iðnaði og þjónustustörfum. Margir sækja atvinnu út frá staðnum. Við Kumbaravog, rétt austan þorpsins, er rekið dvalarheimili fyrir aldraða.

Vaxandi atvinnuvegur er ferðaþjónusta. Sundlaug er á Stokkseyri við barnaskólann. Þuríðarbúð er stórmerkur minnisvarði um farsæla sjókonu og horfna atvinnuhætti við sjávarsíðuna. Veitingastaðurinn Við fjöruborðið er alhliða veitingastaður í kjarna Stokkseyrar sem sérhæft hefur sig í humarréttum. Hver sem kemur til Stokkseyrar ætti að gefa sér tíma til að skoða fuglalífið við fjöruna austan Stokkseyrar eða hlusta þar uppi slóðir tónskáldsins þar sem fékkst innblástur í tónsmíðar. Skemmtilegur möguleiki til að komast í nána snertingu við ósnortna náttúruna gefst með því að fara í kajakaferðir um skerjagarðinn eða um tjarnirnar. Vert er að vekja athygli á húsunum stórum og smáum, gömlum og nýjum. Ef ekið er í austurátt frá þorpinu kemur brátt að Baugsstaðarjómabúi og Knarrarósvita. Ýmsar forvitnilegar ökuleiðir liggja síðan um Flóann.

Texti: Lýður Pálsson
Heimildir: Víða var leitað fanga, helstu heimildir voru Stokkseyringasaga I og II eftir dr. Guðna Jónsson sagnfræðiprófessor, Aðalskipulag Stokkseyrarhrepps 1996-2016 og Svæðisskipulag í Flóa 1990 - 2015.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica