Handbók jafnlaunakerfis
Sveitarfélagið Árborg kappkostar að vera fyrirmyndarvinnuveitandi og eftirsóknarverður og framsækinn vinnustaður þar sem hver starfsmaður er metinn að verðleikum eftir hæfni og frammistöðu, án tillits til kyns, aldurs eða þjóðernis. Æðstu stjórnendur Árborgar vilja jafnframt tryggja faglega mannauðsstjórnun, samfélagslega ábyrgð og góða stjórnunarhætti hjá öllum stofnunum sveitafélagsing og hafa skuldbundið sig til að setja sveitarfélaginu jafnlaunamarkmið og vinna að stöðugum umbótum, eftirliti og viðbrögðum í samræmi við kröfur jafnlaunastefnu og samkvæmt þeim reglum og kröfum sem lýst er í þessari handbók.
Markmið með innleiðingu á jafnlaunakerfi samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 er að koma á og viðhalda launajafnrétti hjá Sveitarfélaginu Árborg og uppfylla skyldur atvinnurekanda skv. III. kafla laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Lögin fjalla um skyldur atvinnurekanda að tryggja jafnan rétt karla og kvenna og að greiða skulu körlum og konum jöfn laun og tryggja að þau njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
Jafnlaunastefna
Jafnlaunastefnan nær til allra starfsmanna og vinnustaða sveitarfélagsins og er endurskoðuð árlega af æðstu stjórnendum samkvæmt verklagsreglu um skjalastýringu. Jafnlaunastefnan var samþykkt í bæjarráði 18. september 2019 og er ætlað að efla jafnrétti á öllum vinnustöðum hvað varðar launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og einelti, kyndbundið ofbeldi, áreiti og áreitni:
- Sveitarfélagið Árborg kappkostar að ráðningar, starfsþróun og símenntun feli ekki í sér kerfisbundna mismunun vegna kyns, aldurs eða þjóðernis. Markvisst er leitað leiða til að jafna kynjahlutfall þvert á starfsgreinar innan vinnustaða sveitarfélagsins. Líta ber til kynjahlutfalls í sambærilegum störfum við ráðningar, reynist tveir umsækjendur jafnhæfir.
- Starfsþróun og símenntun skal nýta til aukins jafnréttis kynja á vinnustað. Þá beitir sveitafélagið sér fyrir reglulegri fræðslu um jafnréttismál fyrir starfsmenn og stjórnendur þess.
- Starfsfólki sveitarfélagsins er gert kleift að samræma skyldur sínar gagnvart vinnu og einkalífi með sveigjanlegum vinnutíma eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið vegna eðlis starfsemi sveitafélagsins og þörf er á.
- Sveitarfélagið Árborg er vinnustaður þar sem einelti, kynferðislegt áreiti, áreitni eða ofbeldi er ekki liðið. Vakin er athygli á heilsuverndarteymi sveitarfélagsins og stefnu gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem finna má á vef sveitarfélagsins, ásamt sérstökum verklagsreglum.
Ábyrgð æðstu stjórnenda og ábyrgðaraðilar jafnlaunakerfis
Bæjarstjóri,
fjármálastjóri, sviðsstjóri Fjölskyldusviðs, sviðsstjóri Mannvirkja- og
umhverfissviðs, bæjarritari og mannauðsstjóri skipa æðstu stjórnendur
sveitarfélagsins og bera sameiginlega ábyrgð á framkvæmd jafnréttismála og að
þeirri stefnu sé framfylgt við allar launaákvarðanir. Bæjarstjóri ber
yfirábyrgð á jafnréttis- og jafnlaunakerfi sveitarfélagsins.
Mannauðsstjóri hefur þá ábyrgð að boða til rýnifundar árlega með æðstu stjórnendum Árborgar. Markmið rýnifundanna er að skoða kerfisbundið og reglulega stöðu jafnlaunakerfisins og greina tækifæri til breytinga, þróunar og stöðgra umbóta.
Mannauðsstjóri er fulltrúi æðstu stjórnenda gagnvart rekstri jafnlaunakerfisins og ber ábyrgð á þróun þess í samvinnu við aðra stjórnendur ásamt því að bera ábyrgð á verklagsreglum, skjölum og skrám jafnlaunakerfisins og að unnið sé samkvæmt jafnlaunakerfinu við ákvörðun launa. Samskipti vegna jafnlaunakerfisins og miðlun upplýsinga til starfsamanna og annara hagsmunaaðila eru á ábyrgð mannauðsstjóra ásamt samskiptum og upplýsingamiðlun um jafnlaunakerfi sveitarfélagsins.
Handbók, verklagsreglur, skýrslur og niðurstöður formlegra erinda eru vistaðar í gæðakerfinu CCQ. Undirbúningsvinna og utanumhald um skjöl er vistað á SharePoint svæði Sveitarfélagsins Árborgar.
Jafnlaunaviðmið
Við ákvörðun launa er horft til starfslýsingar, starfsmats sveitarfélaga, kjarasamninga, tímabundinna þátta eins og álags eða annara þátta eins og þeir eru skilgreindir í kjarasamningum hverju sinni. Umbunað er fyrir einstaklingsbundna og hópbundna þætti samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðeigandi stéttarfélags hverju sinni. Flestar launabreytingar verða vegna kjarasamningsbundinna launahækkana.
Eftirfylgni, vöktun og mælingar
Til að vakta og mæla þá þætti sem hafa áhrif á launakerfi sveitarfélagsins eru launagreiningar framkvæmdar árlega, hið minnsta. Með launagreiningu er átt við kerfisbundna úttekt á launum og kjörum með það að leiðarljósi að skoða hvort um kyndbundinn launamun sé að ræða. Launagreiningin felur bæði í sér samanburð á meðallaunum karla og kvenna, dreifingu launa kynjanna eftir starfshópum og framkvæmd aðhvarfsgreiningar. Eftir framkvæmd launagreiningarinnar eru niðurstöður notaðar til að setja fram aðgerðaráætlun og markmið, ef þurfa þykir. Æðstu stjórnendur rýna aðgerðaráætlunina og samþykkja í árlegri rýni stjórnenda. Helstu niðurstöður jafnlaunagreininga eru kynntar fyrir starfsfólki. Markmið Sveitarfélagins Árborgar er að óútskýrður kynbundinn launamunur sé innan við 2,5%.
Frávik, úrbætur, forvarnir og samskipti
Mannauðsstjóri ber ábyrgð á að unnið sér að stöðugum umbótum, eftirfylgni og viðbrögðum við allri starfrækslu jafnlaunakerfisins og að unnið sé eftir þeim ferlum sem vísað er í. Jafnfram tekur mannauðsstjóri við, skjalar og vinnur með kvartanir, fyrirspurnir eða ábendingar varðandi jafnlaunakerfisins og heldur utan um leiðréttingar vegna launa og ákvarðana um laun og annar þátta sem tengjast jafnlaunakerfinu. Mannauðsstjóri rýnir og metur eðli mála og metur hvort þau eigi við rök að styðjast, leitar lausna í samræmi við alvarleika og eðli máls hverju sinni ásamt því að meta og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að lágmarka frávik.
Innri úttektir
Tilgangur innri úttekta er að sannprófa virkni jafnlaunakerfisins og ákvarða hvort kerfið samræmist skipulagðri tilhögun um stjórnun jafnlaunamála, þ.m.t. kröfum ÍST 85:2012 staðalsins, að það sé innleitt með virkum hætti og því viðhaldið ásamt því að veita stjórnendum upplýsingar um niðurstöður úttekta. Mannauðsstjóri gerir úttektaráætlun sem er unnin í samvinnu með æðstu stjórnendum sveitarfélagsins. Þess er gætt að úttektaraðilar séu hæfir til að sinna því úttektarhlutverki og skulu innri úttaktaraðilar ekki vera hluti af hópi starfsmanna sem kemur beint að vinnu við jafnlaunakerfi sveitarfélagsins.
Lög, reglugerðir og aðrar kröfur
Mannauðsstjóri, í samráði við bæjarritara, ákvarðar hvaða lagalegu kröfur og aðrar kröfur eiga við og viðheldur lista yfir lagalegar og aðrar kröfur. Mannauðsstjóri og bæjarritari meta áhrif breytinga sem hafa orðið á lagalegum kröfum og öðrum kröfum og taka afstöðu til þess hvort þessar breytingar hafa áhrif á jafnlaunastefnuna og jafnlaunakerfið.