Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Sandvíkurhreppur

Sandvíkurhreppur var líkast til orðinn til nokkru áður en tíundarlög voru sett 1096 og má telja upphaf hans um árið 1050 en í Landnámu ber hann heitið Kaldnesingahreppur. Snemma varð þingstaður hreppsins að Sandvík og í túninu í Stóru-Sandvík má enn sjá þinghúshólinn. En árið 1882 var reist þinghús í Litlu-Sandvík og var þingstaður hreppsins þar lengi síðan.

Árið 1703 voru byggðar jarðir í sveitinni 32 en tvíbýli á sumum þeirra. Ábúendur voru því 88 og íbúar sveitarinnar voru 270, þar af 50 sem voru í niðursetu og fluttust milli bæja. Árið 1998 voru íbúar Sandvíkurhrepps 110 og bjuggu þeir á 17 jörðum og 8 þjónustubýlum. Breytingin var mest kringum síðustu aldamót er hjáleigubústaður lagðist af í Kaldaðarnesi og Flóagaflsjarðir voru flestar seldar Eyrarbakkahreppi og fóru þá úr byggð. Stuttur vaxtartími varð frá um 1920 til 1947 er byggð þandist út á Selfossi kringum ört vaxandi samvinnu- og verslunarfyrirtæki þar.

Sandvíkurhreppi var mjög lengi stýrt af fimm hreppstjórnarmönnum er höfðu það verkefni að útdeila fátækratíund er oft dugði skammt og þurfti þá að leggja á aukaútsvar. En árið 1809 var hreppsnefnd Sandvíkurhrepps aflögð og við tók hreppstjóri er sýslumaður valdi, og sá hann um þessi mál ásamt sóknarprestum. Þeir voru oftast tveir, Kaldaðarnesprestur er þjónaði Flóagafls- Kaldaðarnes- og Sandvíkurhverfum ásamt Kotferju og Hraungerðisprestur er þjónaði austurhluta sveitarinnar. Árið 1874 kom svo hreppsnefnd aftur sem stjórnaði sveitarmálefnum til þessa.

Margt hefur breyst í Sandvíkurhreppi síðustu öldina, einkum búskaparhættir. Undir lok síðustu aldar efldist sauðfjárræktin er hún hafði náð sér upp úr fjárkláðanum fyrri. Fyrir 1890 er farið að selja héðan sauði á fæti til Englands og var John Coghill sauðakaupmaður þá hér á ferð og við hann er kennd Coghillfjárréttin við Ölfusá á mörkum Sandvíkur og Selfoss. 

Sauðasalan lagðist af 1896 og voru næstu búskaparár döpur uns bændur fóru eftir aldamótin að leggja kúa- og fráfærumjólk inn í rjómabú – fyrst í Arnarbæli í Ölfusi en frá 1911 í rjómabúið í Sandvík. Árið 1907 gerðust velflestir bændur stofnendur Sláturfélags Suðurlands og fluttu sláturfé sitt til Reykjavíkur uns sláturhús SS reis á Selfossi 1946. 

Rjómabúin lognuðust út af upp úr fyrra stríði, hér í Sandvík 1928, er fráfærum lauk og menn höfðu betra út úr því að selja haustlömb til slátrunar. Kúamjólkin fór næstu árin til sölumeðferðar hjá kaupmönnum í Reykjavík en árið 1929 tók Mjólkurbú Flóamanna til starfa á Selfossi og 1935 voru allir bændur sveitarinnar komnir þar í viðskipti.

Næstu árin var rekinn hefðbundinn búskapur í Sandvíkurhreppi: mjólk til innleggs í MBF, haustlömb rekin í sláturhús ásamt eldri ám og mjólkurkúm. Um garðrækt var aðeins að ræða til heimilisþarfa uns mikil garðrækt hófst á einum bæ upp úr 1950. Gulrófnarækt var einnig stunduð á nokkrum bæjum, en þeim hefur nú fækkað.

Tilhneigingin nú er til samþjöppunar í búskap

Algildur hefðbundinn landbúnaður er á undanhaldi en rekstrareiningar hafa stækkað. Fjárbúskapur er mjög á undanhaldi; einungis fjórir bændur búa það stórum búum að þeir fá beingreiðslur. Kúabú eru átta og flest yfir meðallagi. Þá er rekinn hrossabúskapur á tveimur jörðum, kjúklingarækt á einni jörð, nautabúskapur á annari, svínabú á þeirri þriðju. Einn bóndi hefur æðarvarp og laxveiði en hefur fullt starf með því. 

Nokkuð víða hafa ábúendur fullt starf að heiman og svo mun vera um öll þjónustubýlin. Lítið hefur verið um atvinnulausa í sveitinni um þessar mundir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica