Felix Bergsson heimsækir Bókasafn Árborgar, les úr nýrri bók sinni og syngur með krökkunum!
Öll eru velkomin í gæða og gleðistund á bókasafninu, laugardaginn 8. nóvember kl. 11:00!
Nú á dögunum kom út barnabók eftir Felix Bergsson um Ævintýri Freyju og Frikka. Sagan heitir Drottningin af Galapagos og er fyrsta ævintýrið í bókaflokknum sem er að koma út á vegum Drápu. Áður höfðu þessar sögur komið inn á Storytel en aldrei sést á bók áður.
Sögurnar um Freyju og Frikka fjalla um skemmtilega 11 ára tvíbura sem ferðast með foreldrum sínum á óvenjulega staði og lenda jafnan í háskalegum ævintýrum. Í fyrstu sögunni liggur leiðin alla leið til Galapagos til að sigla á milli eldfjallaeyja á Drottningunni af Galapagos. Fljótlega kemur í ljós að einhver farþeganna er með óhreint mjöl í pokahorninu og glæpur gegn stórkostlegu en viðkvæmu dýralífi eyjanna er í uppsiglingunni. Enginn trúir börnunum og því þurfa þau að taka til sinna ráða.
Mjög er vandað til útgáfunnar og bókina prýða frábærar myndir eftir Kára Gunnarsson. Bækurnar eru ætlaðar krökkum sem elska spennandi ævintýri og eru tilvaldar til lesturs fyrir þau sem eru farin að geta lesið sjálf.
Allir eru velkomnir í gæða og gleðistund á bókasafninu, laugardaginn 8 nóvember kl 11.00!




