Sumarleikur fjölskyldunnar í Árborg | Finna póstkassann 2022

  • 13.6.2022 - 31.8.2022, Sveitarfélagið Árborg

Ratleikur þar sem gengið er á valda staði í sveitarfélaginu og kvittað í gestabók sem um leið gefur möguleika á verðlaunum.

Sveitarfélagið Árborg í samstarfi við Heilsueflandi samfélag ætlar að endurtaka leikinn sumarævintýri fjölskyldunnar frá því sumarið 2021 sem heppnaðist vel og var mjög vel sóttur

Um er að ræða sex staði í sveitarfélaginu þar sem búið er að setja sérstaka póstkassa sem þarf að ganga að og merkja í gestabókina. Staðirnir eru við Grýlupottana, Hellisskóg, Hallskot og fuglafriðlandið, Ingólfsfjall, fjaran við Knarrarósvita og Silfurbergið en nánari skýringar má finna hér að neðan.

Markmið verkefnisins er að hvetja fjölskyldur til útivistar í fallegu náttúrunni okkar, kynnast nærumhverfi sínu betur, uppgötva staði sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða, skapa samverutíma saman og eignast skemmtilegar minningar saman.

Verkefnið er sett upp af Díönu Gestsdóttur, lýðheilsu- og forvarnarfulltrúa a hjá Sveitarfélaginu Árborg en hún sér um verkefni tengd heilsueflandi samfélagi fyrir alla aldurshópa í sveitarfélaginu.

Vinningar í boði frá veitingastöðum í sveitarfélaginu, til dæmis Kaffi krús, Skyrlandi og Miðbænum. Til að komast í vinningspottinn þarf að kvitta í fjórar bækur af þeim sex sem í boði eru.

Hvetjum við alla til að reima á sig skóna og kíkja í nokkra póstkassa. Leikurinn varir fram til 31. ágúst í ár.

HSAM-Arborg-logo_1619511574816

Nánar um hvern stað og staðsetningu póstkassanna

Leið 1: Grýlupottarnir

Grýlupottarnir eru staðsettir við Engjaveginn á Selfossi, hjá tjaldsvæðinu í Gesthúsum. Grýlupottarnir eru sérkennilegar jarðmyndanir sem mynduðust í Þjórsárhrauni, stærsta kerið er með hraunhvelfingu. 

Gaman er að kíkja á Grýlupottana og stutt að fara á íþróttavöllin eða jafnvel kíkja í frisbígolf?

Leið 2: Hellisskógur

Frá árinu 1986 hefur Hellisskógur verið aðal vinnusvæði skógræktarfélags Selfoss. Hefur skógræktin, sjálfboðaliðar og sveitarfélagið unnið mikið og gott verk. Svæðið var afhent skógræktarfélagi Selfoss með samningi við Selfossbæ þann 1.október 1985. Þrátt fyrir engan skóg var svæðið strax nefnt Hellisskógur, var landið þá mjög illa farið eftir langvarandi ofbeit sauðfjár og hrossa. Mýrlendið var víða gróðurlítið, mikil drullusvað og í holtunum voru stór rofaborð.

Flestir kannast við hellirinn í Hellisskógi, en hann er talinn hafa myndast í lok síðasta jökulskeiðsþegar brim svarf klettaborgina til en víða má sjá merki um ágang sjávar. Sögur segja að reimt sé í hellinum, svo fólk skal ekki láta sér bregða þótt óvenjuleg atvik eigi sér stað meðan það heimsækir hellirinn. Mögulegt er að næmir göngumenn geti átt von á því að að sjá hér ungan mann með langan trefil á sveimi. Er þar á ferð maður sem hengdi sig í hellinum vegna ástarsorgar. Hellirinn var lengi vel notaður sem fjárhús.

Í skóginum hefur verið plantað um 220.000 plöntum af 51 tegund og má finna þær allar í trjásafni skógarins.

Við mælum með að nesta sig upp, taka með sér teppi og arka af stað inn í skóginn þar sem finna má nokkrar skemmtilegar gönguleiðir. Hér er hægt að eyða góðum tíma saman, upplifa allskonar skemmtilegt saman, m.a. kasta steinum í ölfusá, athuga hvort tröllið sé undir brúnni og jafnvel rekast á nokkrar kanínur.

Ef þið haldið ykkur á bláu leiðinni í Hellisskógi finnið þið póstkassann. En hann er í nálægð við gott útsýni, við klettana.

Leið 3: Silfurberg

Suður úr vesturhorni fjallsins skagar grár klettamúli Silfurberg sem er úr móbergi með ljósum holufyllingum sem aðallega eru geislasteinaútfellingar. Stundum nefnt öxlin á Ingólfsfjalli. Létt og skemmtileg ganga sem hentar allri fjölskyldunni.  

Mælum með uppáhaldsnesti og góða skapinu.

Við viljum vekja athygli á því að lausaganga hunda er bönnum á þessu svæði og biðjum við ykkur því að hafa þá í bandi ef þeir verða svo heppnir að fá að skottast með.

Póstkassinn er staðsettur á leiðinni. 

Leið 4: Hallskot og Friðland í Flóa

Hallskot er stórbrotið útivistarsvæði norðan við Eyrarbakka í átt að Fuglafriðlandinu í Flóa. Hallskot er í umsjá Skógræktarfélags Eyrarbakka.

Hallskot býður upp á fjölmarga möguleika til útivistar og hreyfings. Mjög skjólsælt svæði þar sem finna má bekki og borð. Frábær hugmynd að taka með sér teppi og nesti, setjast niður og njóta þessa fallega staðar saman.

Eftir smá skoðun í Hallskoti mælum við með því að fólk leggi leið sína að Fuglafriðlandinu í flóa sem er staðsett aðeins lengra út sama afleggjara. Þegar þið komið að bílastæðinu við fuglaskoðunarhúsið finnið þið póstkassann góða. 

Leið 5: Fjaran í Stokkseyri/Knarrarósviti

Knarrarósviti er 26,2 metra hár viti sem stendur við Knarrarós austan við Stokkseyri. Vitinn stendur á landi Baugsstaða og er svæðið kallað kampur. Vitinn er skýrður eftir ós sem er staðsettur fyrir framan hann sem kallaður er Knarrarós. Útsýnið úr vitanum er einstaklega mikið og fallegt.

Árið 1938 hófst vinna við að byggja upp Knarrarósvita og var hann tekinn í notkun ári síðar eða 31. ágúst 1939. Þjónaði vitinn gríðarlega miklu hlutverki fyrir sjávarútveginn á þessum tíma þar sem innsiglingar á þessu svæði voru mjög hættulegar. Mörg skip hafa farist á þessum slóðum. Vitinn er hæsta bygging á Suðurlandi.

Vitinn verður opinn fyrir almenning í sumar og mælum við með ferð upp á topp og njóta útsýnisins af honum.

Eftir heimsókn í vitan höldum við beint á leið út í fjöruna þar sem póstkassinn býður okkar, en að sjálfsögðu mælum við með að leika smá í fjörunni líka.

Leið 6: Ingólfsfjall

Ingólfsfjall í Ölfusi er 551 m (Inghóll) á hæð yfir sjávarmáli. Fjallið er hlíðarbratt móbergsfjall með hraunlögum inn á milli, einkum að neðan og í kolli. Fjallið varð til um miðja ísöld og var sjávarhöfði í lok ísaldar þegar sjávarstaða var sem hæst.  Fjallið er kennt við landnámsmanninn Ingólf Arnarson. Upp á fjallinu er grágrýtishæð sem heitir Inghóll og segja munnmæli að þar sé Ingólfur heygður.

Það er hömrum girt að mestu nema að norðanverðu, þar eru aflíðandi brekkur upp að fara. Að ofan er fjallið flatt. Það er um 5 km frá vestri til austurs en um 7 km frá norðri til suðurs.   Fjölmargar leiðir eru færar upp á fjallið þó hin hefðbundna gönguleið austan Þórustaðanámu sé lang mest gengin.

Á góðum sumardegi er fátt betra en reima á sig skóna og skunda upp að vörðu (400 m) þar sem gestabók Ferðafélags Árnesinga er staðsett. Gildir einu hvort þú ætlir þér að vera 20 mínútur á leiðinni upp eða tvær klukkustundir. Þegar upp á topp er komið mælum við að sjálfsögðu með toppamynd, njóta fallega útsýnisins, góðri nestispásu og að sjálfsögðu kvitta í stílabókina góðu sem staðsett er hjá gestabók Ferðafélags Árnesinga.

Upphafsstaður: Þórustaðanáma 


Viðburðadagatal

2.3.2024 - 25.8.2024 Listasafn Árnesinga Listasafn Árnesinga | Fjórar sýningar

Fjórar sýningar frá 02. mars til og með 25. ágúst.
Loftnet | Hamflettur | Kaþarsis | Draumur móður minnar

Sjá nánar
 

18.3.2024 - 22.4.2024 Listagjáin Konur á vettvangi karla | Listagjáin

Sýningin Konur á vettvangi karla var 30 ára afmælissýning Héraðsskjalasafns Árnesinga.

Sjá nánar
 

2.4.2024 - 25.4.2024 Myndlistarfélag Árnessýslu Myndlist 40-4 | apríl

Myndlistarfélag Árnessýslu býður öllum áhugasömum að taka þátt í opnum vinnustofum og örnámskeiði í apríl.

Sjá nánar
 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica