Ábyrgur rekstur | Aðgerðir að skila árangri
Í framhaldi af samþykkt fjárhagsáætlunar Árborgar 2025 - 2028 var haldin kynning fyrir íbúa og áhugasama á helstu markmiðum, áherslum og stöðu sveitarfélagsins. Myndband og glærur af kynningunni má sjá að neðan.
Síðustu ár hafa verið krefjandi í rekstri Sveitarfélagsins Árborgar sem hefur farið í gegnum miklar hagræðingar og endurskipulagningu. Verkefnið “Brú til betri vegar” hefur gengið vel og rekstur sveitarfélagsins að verða stöðugri til framtíðar.
Rekstrarniðurstaða ársins 2024 er sömuleiðis umfram væntingar sem skýrist af hagræðingum í rekstri, forgangsröðun, sölu eigna og auknum tekjum, m.a. vegna álags á útsvar. Sú jákvæða niðurstaða hefur skipt veigamiklu máli í að koma á móti neikvæðri rekstrarniðurstöðu undanfarinna ára og skapa grunn að forsendum fjárhagsáætlunar líkt og sést á mynd 1.
Mynd 1: Loksins jákvæð rekstrarniðurstaða eftir tap undanfarin ár.
Á kynningarfundinum fór Magnús Kristjánsson, ráðgjafi KPMG yfir stöðu Árborgar frá því verkefnið “Brú til betri vegar” hófst í upphafi kjörtímabilsins. Það er ánægjulegt að tölurnar sýni að árangurinn hefur verið umtalsverður á þessum tíma og í raun betri en búist hafði verið við. Sveitarfélagið er þannig búið að ná lykilviðmiðum eftirlitsnefndar hvað varðar skuldaviðmið og rekstrarjöfnuð. Hann lagði einnig áherslu á að breytt verklag og áherslur hjálpi sveitarfélaginu að lenda ekki aftur á sambærilegum stað.
Bragi Bjarnason, bæjarstjóri kynnti síðan helstu markmið og áherslur í fjárhagsáætlun 2025 - 2028. Áætlunin undirstrika jákvæðan árangur og meiri stöðugleika í fjármálum sveitarfélagsins á næstu árum ef haldið er áfram á sömu braut.
- Fjárhagsáætlun Árborgar 2025 - 2028 | Kynning
- Innlegg á íbúafundi í Árborg 9. desember 2024 | Kynning
“Það er ánægjulegt að Sveitarfélagið Árborg sé komið á betri stað fjárhagslega en mikilvægt að halda áfram að sýna ábyrgð í rekstri. Árangurinn hefur ekki náðst af sjálfu sér og vil ég aftur þakka bæjarfulltrúum, starfsmönnum, íbúum og öllum öðrum sem hafa komið að verkefninu hingað til. Við erum á góðri leið og höldum ótrauð áfram” sagði Bragi Bjarnason, bæjarstjóri af þessu tilefni.