Ársreikningur Árborgar 2018 til fyrri umræðu í bæjarstjórn
2. maí 2019
Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar var tekinn til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar þann 30. apríl. Samstæða sveitarfélagsins skilar afgangi frá rekstri upp á 194,8 millj.kr., samanborið við 282,8 millj.kr afgang árið 2017. Í því sambandi má nefna að fjármagnsgjöld eru 129,3 millj. kr. hærri en árið 2017 vegna aukinnar verðbólgu. Aðalsjóður er nú rekinn með 50,0 millj.kr. rekstrarhalla af sömu orsökum. Skuldahlutfall samstæðunnar lækkar enn og fer skuldaviðmið sem reiknað er skv. reglugerð 502/2012 um fjárhagsviðmið sveitarfélaga í 122,6%, en var 124% í árslok 2017.
Heildarniðurstaða ársreiknings fyrir árið 2018 telst vel viðunandi. Veltufé frá rekstri er 11,9% af heildartekjum sem er mjög ásættanlegt, tekjur aukast umtalsvert og sjóðstreymi lagast. Handbært fé frá rekstri var 872,3 millj.kr. Þessi stærð er mjög mikilvæg þar sem hún sýnir þá peningamyndun sem varð hjá sveitarfélaginu á árinu. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að þessi stærð sé hærri en nettó greiðslubyrði langtímaliða til þess að samstæðan þurfi ekki að fjármagna rekstur eða endurgreiðslu lána með nýju lánsfé eða sölu eigna. Afborganir og uppgreiðslur langtímalána og lífeyrisskuldbindinga á árinu námu 839,5 millj.kr.
Breytingar hafa verið gerðar á framsetningu samstæðuársreiknings en þær eru að arður sem Fráveita, Vatnsveita og Selfossveitur greiða til aðalsjóðs er nú færður til gjalda undir fjármagnsliðum í stað þess að færa hann í gegnum eigið fé. Þetta lækkar rekstrarniðurstöðu ársins um 180 millj.kr. Með þessum breytingum fæst betri mynd af eiginlegum rekstri sveitarfélagsins.
Þrátt fyrir að afkoma sé að mestu leyti góð eru ýmis tækifæri til að gera betur í rekstri. Vinna við að ná þeim árangri er þegar hafin, m.a. á grunni úttektar Haraldar L. Haraldssonar.
Fjárhagsáætlun og framtíðarhorfur
Töluvert er um frávik í fjárhagsáætlun þó að þau jafnist ágætlega út milli málaflokka þegar upp er staðið. Mikil aukning skatttekna hverfur hinsvegar í óhagstæðum frávikum í rekstrarreikningi, m.a. vegna verðbólguáhrifa í fjármagnsliðum en verðbólgan eykur jafnframt annan rekstrarkostnað. Fjölgun íbúa kallar auk þess á aukinn fjölda stöðugilda, sérstaklega í skólamálum, en ekki var gert ráð fyrir fjölgun í upphaflegri áætlun.
Íbúafjölgun var 5,5% á árinu 2018 og sér ekki fyrir endann á mikilli fjölgun íbúa. Þetta felur í sér tækifæri en gerir um leið kröfur til mikilla fjárfestinga og að gætilega sé farið í fjármálum. Áætla má að fjölgun íbúa haldi áfram á árinu 2019 með svipuðum hætti og var árið 2018. Mikill fjöldi íbúða er enn í byggingu, auk þess sem sveitarfélagið mun á næstunni úthluta lóðum í nýju hverfi, Björkurstykki.
Aukna áherslu má leggja á nákvæmni í gerð fjárhagsáætlunar til að draga úr frávikum í áætlun, hvort sem er vegna tekna eða gjalda. Leitast verður við að bæta úr þessu við gerð fjárhagsáætlunar í haust og í því sambandi verður litið til þeirra „Best practice“ leiðbeininga sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út.
Hægt verður að nálgast ársreikninginn á heimasíðu Árborgar,
http://www.arborg.is eftir að hann hefur verið tekinn til seinni umræðu í bæjarstjórn.