Inga Lára Baldvinsdóttir og Magnús Karel Hannesson hlutu Menningarviðurkenningu Árborgar árið 2025
Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn á Byggðasafni Árnesinga í gær.
Mikil gleði og ánægja braust út í sal Varðveisluhúss Byggðasafns Árnesinga í gær, þegar hjónin Inga Lára Baldvinsdóttir og Magnús Karel Hannesson hlutu Menningarviðurkenningu Árborgar 2025. Viðurkenningin var veitt fyrir fullu húsi í kjölfarið á vel lukkuðum viðburði þeirra hjóna þar sem þau sögðu frá nýútkominni bók um horfin hús á Eyrarbakka, rannsóknarvinnu sinni og niðurstöðum.
Inga Lára og Magnús eru vel að þessum heiðri komin enda hafa þau á undanförnum áratugum auðgað menningarlíf í sveitarfélaginu svo sómi er að. Má hér nefna ljósmyndasýningar, sögugöngur, bókaútgáfu og síðast en ekki síst Laugabúð, og er þó alls ekki allt upp talið.
Það var einróma ákvörðun bæjarráðs að veita þeim hjónum þessa viðurkenningu í ár og þakka þeim um leið fyrir þeirra ómetanlega menningarstarf í þágu samfélagsins.

Frá vinstri: Bragi Bjarnason, bæjarstjóri, Inga Lára Baldvinsdóttir, Magnús Karel Hannesson og Hera Fjölnisdóttir frá Menningar- og upplýsingadeild Árborgar.

Verðlaunagripurinn: Lóa eftir myndlistarmanninn Hafþór Ragnar Þórhallsson.
