Karlar í Uppsölum – ný vinnustofa fyrir smíðavinnu og góðan félagsskap
Nýtt og spennandi verkefni hefur sprottið af stað sem ber heitið ,,Karlar í Uppsölum“. Hugmyndin er að þar komi saman einstaklingar sem vilji hittast, sinna smíðavinnu, fá sér kaffi, spjalla og um leið eflast félagslega.
Vinnustofan er staðsett í Grænumörk 5 á annarri hæð í salnum ,,Uppsalir“ en þaðan kemur nafnið ,,Karlar í Uppsölum“.
Eftir gott samstarf Félags eldri borgara á Selfossi, Bylgju Sigmarsdóttur tengiráðgjafa, Heiðrúnu Lilju umsjónarmanns félagsmiðstöðvar fyrir eldra fólk, ásamt körlunum sem áttu frumkvæði að því, spratt þetta verkefni af stað og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. Sérstakar þakkir til stjórnar félags eldri borgara á Selfossi sem buðu fram rýmið til notkunar í þetta verkefni og verður nú hluti af starfi félagsins. Félag eldri borgara á Selfossi eru virkilega ánægð með þessa viðbót í starfið.
Fyrir hverja er vinnustofan?
Meðlimir í Félagi eldri borgara á Selfossi sem eru 60 ára og eldri og vilja sinna einhverskonar smíðavinnu eða hafa áhuga á smíðavinnu eru velkomnir en einnig er aðstaða til að fá sér kaffi og spjalla. Verkefnið er á byrjunarstigi, verið er að þróa og móta svæðið og þau sem vilja taka þátt í því eru velkomin.
Opnunartími er mánudaga til fimmtudaga frá kl. 08:30 til kl. 16:00 og á föstudögum frá kl. 08:30 til kl. 14:00, þetta er sami opnunartími og í Félagsmiðstöðinni.
Nú þegar eru komnir um 12 - 15 manns sem vilja hefja vinnu við að byggja upp svæðið og hugmyndavinna hafin um hvernig best sé að nýta rýmið. Þátttakendur setja sjálfir upp vinnuaðstöðu og hafa frelsi til að byggja þetta upp eftir því sem hentar þeim best, svipað og fyrirkomulagið er hjá ,,Karlar í skúrum“.
,,Vinnustofa eins og þessi er eitthvað sem hefur lengi verið þörf fyrir hér á svæðinu og virkilega ánægjulegt að þetta sé orðið að veruleika. Ánægjulegt líka að mennirnir sjálfir hafi leitað til okkar og við náð að vinna þetta hratt og vel með góðu samstarfi. Það er það sem við viljum, að fólk leiti til okkar með hugmyndir fyrir virkni og félagsstarf.“, sagði Bylgja Sigmarsdóttir, tengiráðgjafi hjá Sveitarfélaginu Árborg.

