Rannveig og Örn sigurvegarar SAMZEL 2026
Síðasta miðvikudag fór fram Samzel, árleg söngkeppni Zelsíuz, þar sem ungmenni stigu á svið og sýndu hæfileika sína við frábærar undirtektir gesta. Kvöldið einkenndist af mikilli stemningu, fjölbreyttu lagavali og hugrekki þátttakenda sem stigu út fyrir þægindarammann og létu ljós sitt skína. Keppnin var haldin á Sviðinu og var fullt hús af áhorfendum.
Þátttakendur kvöldsins buðu upp á afar fjölbreytt atriði. Rannveig flutti lagið Valerie eftir Amy Winehouse, Hugrún Hadda söng Out there on my own úr Fame , Hrefna Rós flutti A Change is gonna come eftir Sam Cooke og Hafberg og Sveinn fluttu frumsamið lag sem ber titilinn Klukkan 3. Steinn Steinarr söng lagið Söknuður, Ása Guðrún flutti Hopelessly devoted to you úr söngleiknum Grease, Valeriana tók hið krefjandi lag Bohemian Rhapsody og spilaði lagið sjálf á píanó og þau Rannveig og Örn fluttu lagið Vienna eftir Billy Joel þar sem Örn spilaði undir á píanó.
Dómnefnd kvöldsins var skipuð öflugum hópi: söngkonan Emilía Hugrún, rapparinn Lukku Láki og Gunnar Eysteinn, deildarstjóri frístundaþjónustu. Þau hrósuðu keppendum fyrir metnað, hugrekki og fjölbreytni í flutningi og sögðu ljóst að erfitt hefði verið að velja á milli atriða.
Keppnin var jöfn og spennandi en að lokum stóðu þau Rannveig og Örn uppi sem sigurvegarar kvöldsins. Hugrún Hadda hreppti annað sætið og Hrefna Rós það þriðja. Þá hlutu Sveinn Atli og Hafberg sérstök verðlaun fyrir skemmtilegasta atriði kvöldsins fyrir frumsamda lagið sitt.
Sigurvegarar kvöldsins, Rannveig og Örn, munu keppa fyrir hönd Zelsíuz í undankeppni söngkeppni Samfés á Suðurlandi sem fram fer á Flúðum þann 20. mars, þar sem þau mæta fulltrúum annarra félagsmiðstöðva á svæðinu að keppast um sæti í Sönkeppni Samfés í maí.
Starfsfólk Zelsíuz er afar stolt af öllum þeim ungmennum sem tóku þátt. Söngkeppnin er dýrmætur vettvangur fyrir ungmenni til að efla sjálfstraust, tjá sköpunargleði og upplifa stuðning jafningja og starfsfólks. Kvöldið sýndi enn og aftur þann mikla hæfileika og kraft sem býr í ungmennahópnum í Árborg.
Við óskum sigurvegurum kvöldsins innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með þeim á næsta stigi keppninnar.








