Starfsánægja eykst hjá Sveitarfélaginu Árborg
Síðastliðið ár hefur Sveitarfélagið Árborg mælt starfsánægju starfsmanna sinna með púlskönnunum frá fyrirtækinu Moodup, en hjá Árborg starfa um 1000 manns, í 790 stöðugildum á 36 vinnustöðum.
Sendar hafa verið út fimm kannanir frá apríl 2024 og hefur svarhlutfallið ávallt verið um 80%
Púlskönnunin mælir tíu drifkrafta starfsánægju og er ánægjulegt að segja frá því að starfsánægjan hefur hækkað jafnt og þétt hjá Árborg síðan fyrsta könnunin var send út.
Starfsánægja
Þegar niðurstöður Árborgar eru skoðaðar í samanburði við aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki þá er Árborg í efstu 25% þegar kemur að samsvörun og heilsu og vellíðan. Samsvörun mælir tengingu við sýn, markmið og gildi vinnustaðarins og heilsa og vellíðan mælir streitu, aðbúnað og heilbrigði starfsumhverfis.
Árborg er fyrir ofan miðgildi í samanburði við aðrar opinberar stofnanir og fyrirtæki þegar drifkraftarnir samskipti, vöxtur í starfi, samband við yfirmann, viðurkenning, ánægja, aðbúnaður og helgun eru skoðaðir.
Ef þú ættir að lýsa vinnustaðnum með einu orði
Árborg er rétt fyrir neðan miðgildi þegar drifkrafturinn samband við jafningja er skoðað og eru tækifæri þar til að gera betur og stuðla að auknu trausti og bættum samskiptum og samstarfi milli samstarfsfólks.
Þess má geta að Árborg er með jafnlaunastefnu og mælist launamunur milli kynjanna 0% að teknu tilliti til starfahóps, menntunar, starfsaldurs og fastrar- og óreglulegrar yfirvinnu.
Árið 2019 þegar sveitarfélagið hlaut fyrst um sinn jafnlaunavottun mældist launamunurinn 4,3% konum í óhag og því óhætt að segja að búið sé að ná góðum árangri í að jafna laun milli kynjanna.