Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


29. júní 2022

Deiliskipulag | Austurvegur 67

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er auglýst eftirfarandi deiliskipulagstillaga:

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum þann 22. júní 2022 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina Austurvegur 67, á Selfossi. 

Staðsetning lóðarinnar er við gatnamót Laugardælavegar og Austurvegar, austast á Selfossi og er stærð lóðar um 25.000 m2. Svæði deiliskipulags afmarkast af Laugardælavegi í austri Austurvegi í suðri en að öðru leyti að lóð Mjólkursamsölunnar að Austurvegi 65. Aðkoma að svæðinu er um Laugardælaveg með tveimur tengingum. Austurhluti svæðisins er skermað af með jarðvegsmönum og trjáröðum, auk þess er það afgirt. Tildrög deiliskipulags eru fram komin vegna ört stækkandi byggðar Sveitarfélagsins Árborgar og vegna óhentugrar staðsetningar á núverandi hitaveitudælustöð, og hafa Selfossveitur ákveðið að hefja vinnu við að koma fyrir nýrri dælustöð fyrir hitaveitu á núverandi lóð Selfossveitna að Austurvegi 67 á Selfossi. Mun dælustöð þessi þjóna sem aðaldælustöð veitunnar ásamt því að fyrirhugað er að koma stjórnstöð Selfossveitna fyrir í sama húsnæði. Höfuðmarkmið deiliskipulagstillögunnar er að auka svigrúm uppbyggingar á lóð Selfossveitna til að auka afkastagetu og rekstraröryggi afhendingar á heitu vatni. Þá gerir tillagan ráð fyrir 4 byggingarreitum sem munu þjóna framkvæmda- og veitusviði, skipulags- og byggingardeild, ásamt þjónustumiðstöð Árborgar.

Ofangreind skipulagstillaga liggur frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Austurvegi 67, Selfossi. 

Tillögurnar eru auglýstar með athugasemdafresti frá 29. júní 2022 til og með 10. ágúst 2022.

Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar, og er frestur til að skila inn athugasemdum til 10. ágúst 2022.

Athugasemdum og ábendingum skal skila skriflega á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Austurvegi 67, 800 Selfossi, eða netfangið skipulag@arborg.is

Í samræmi við 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er ákvörðun stjórnvalds kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um gildistöku skipulags í B-deild Stjórnartíðinda.

Virðingarfyllst,
Rúnar Guðmundsson | skipulagsfulltrúi


Þetta vefsvæði byggir á Eplica