Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


8. september 2021

Verndarsvæði í byggð | Eyrarbakki

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um verndarsvæi í byggð nr. 575/2016 er hér auglýst tillaga að verndarsvæði í byggð - Eyrarbakka

Á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar þann 18. ágúst 2021 var ákveðið að leggja fram tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verndarsvæði í byggð innan Eyrarbakka sbr. 4. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015. Svæðið sem um ræðir er 28 ha að stærð og nær yfir elsta hluta Eyrarbakka meðfram Búðarstíg, Eyrargötu og Háeyrarvöllum frá Nestbrú í vestri til Steinskotsbæjanna í austri.

Afmörkun verndarsvæðisins tekur mið af afmörkun hverfisverndar eins og hún er skilgreind í aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 en nær auk þess til votlendisins milli Þykkvaflatar og Steinskotsbæjanna sem kallast Hóp. Þorpið byggðist út frá jörðunum Einarshöfn, Skúmsstöðum og Háeyri í tengslum við verslun og sjósókn, en Eyrarbakki var helsti verslunarstaður Suðurlands allt fram á 2. áratug 20. aldar.

EyrarbakkiHúsakönnun | Verndarsvæði í byggð

Innan verndarsvæðisins er að finna eina heillegustu, samfelldu byggð alþýðuhúsa frá því um og eftir aldamótin 1900, sem varðveist hefur á Íslandi og er stór hluti þeirra friðaður skv. 29. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Auk þess eru þrjú þeirra friðlýst skv. 31. gr. sömu laga en það eru Húsið, Assistentahúsið og Eyrarbakkakirkja. Saga þessara húsa og þorpsins alls er samofin sögu verslunar og sjósóknar og enn má greina augljós spor og minjar frá þessum gamla tíma á Eyrarbakka, í samspili húsa, hlaðinna garða, gatna og annarra minja.

Í tillögunni er fjallað um verndargildi húsa og umhverfis og settir fram skilmálar sem miða að því að festa í sessi og viðurkenna þá sérstöðu sem Eyrarbakki hefur sem heilsteyptur byggðakjarni frá aldamótunum 1900, sem dæmi um gamalt íslenskt verslunar- og sjávarþorp þar sem húsagerðalist hefur blómstrað með sérstökum hætti og stór hluti hennar varðveist allt fram á þennan dag. Til grundvallar liggur húsakönnun og fornleifaskýrsla, sem unnar voru í tengslum við verkefnið, auk annarra gagna sem aflað hefur verið í tengslum við verkefnið.

Ofangreind skipulagstillaga liggur frammmi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Austurvegi 67, Selfossi.

Tillögurnar eru auglýstar með athugasemdafresti frá 08.09.2021 til og með 20.10.2021. Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar, og er frestur til að skila inn athugasemdum til 20.10.2021.

Athugasemdum og ábendingum skal skila skriflega á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Austurvegi 67, 800 Selfossi, eða netfangið skipulag@arborg.is

Anton Kári Halldórsson | skipulagsfulltrúi


Þetta vefsvæði byggir á Eplica