Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Sundhöll Selfoss

  • Sundhöll Selfoss

Tryggvagata 15 | Sími: 480 1960
Opnunartími: mán.- fim.: 06:30 - 21:00,
föstudaga: 06:30 - 19:00,
laugard. - sunnud.: 09:00 - 18:00
Opening hours: Mon. - Thur.: 06:30 - 21:00,
Fridays: 06:30 - 19:00,
Saturday - Sunday: 09:00 - 18:00

Sundhöll Selfoss er staðsett í miðbæjarkjarna Selfoss í göngufæri frá helstu verslun og þjónustu

Við sundlaugina er næg bílastæði allt í kring fyrir gesti. Í Sundhöll Selfoss er barna- og 18 metra innilaug, 25 metra útilaug, barnalaug með þremur rennibrautum, vaðlaug, vatnsgufa, sauna og heitir og kaldir pottar. Fjórir búningsklefar eru við sundhöllina, tveir inniklefar og tveir útiklefar, sér búningsaðstaða er fyrir fatlaða í inni- og útiklefum. Ný viðbygging var opnuð sumarið 2015 sem gjörbylti allri aðstöðu við Sundhöllina en bætt var við barnalaug inni, nýrri afgreiðslu og stærri búningsklefum.

Forstöðumaður sundlauga sveitarfélagsins er Magnús Gísli Sveinsson magnus.gisli@arborg.is.

Skólasund og sundæfingar

Innilaug Sundhallar Selfoss er nýtt sem æfingalaug en gestir eru velkomnir að nýta hana þegar ekki eru æfingar.

Heilsuræktarstöðin World Class hefur aðstöðu á efri hæð Sundhallarinnar en sameiginleg afgreiðsla er fyrir hana og sundlaugina. Sundhöll Selfoss er ein af stærstu sundlaugum á Suðurlandi en árlega koma yfir 320 þúsund gestir í laugina.

Athugið að:

  • Hætt er að selja inn í sundlaugarnar 15 mínútum fyrir auglýstan lokunartíma.
  • Frá 1. september til 1. maí er börnum 10 - 12 ára vísað upp úr sundlaugum Árborgar kl. 19:30 (hætt að hleypa ofan í sundlaug kl. 19:15) svo þau hafi tíma til að komast heim til sín fyrir lok útivistartíma sem er kl. 20:00.
    Sé forráðamaður á svæðinu (sundlaug eða líkamrækt) geta börnin verið lengur en umræddur útivistartími enda á ábyrgð forráðamanns.  

Úr handbók Umhverfisstofnunar um sund og baðstaði

TAKMARKANIR

„Börnum sem ekki hafa náð 10 ára aldri er óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri.

Aldursmörk gilda til 1. júní það ár sem barnið verður 10 ára. Ekki skal leyfa þeim sem er 15 ára og eldri að hafa fleiri en tvö börn með sér yngri en 10 ára, nema um sé að ræða foreldri eða þann sem fer með forsjá barns lögum samkvæmt. Ber viðkomandi að gæta í hvívetna að öryggi þeirra barna sem eru með honum á meðan þau eru í eða við laug.

Þegar hópar barna yngri en 10 ára koma saman mega ekki fleiri en 15 börn vera í umsjón hvers kennara eða ábyrgðarmanns hóps sem, ásamt laugarverði, er ábyrgur fyrir hópnum. Miða skal við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi séu lögráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Til að auðvelda kennara eða ábyrgðarmanni hópa að fylgjast með hverju barni skulu hópar barna sérstaklega auðkenndir með áberandi lit á sundhettum, armböndum, vestum eða á annan sambærilegan hátt. Gætt skal vel að því að börn fari ekki í laug á undan kennurum, þjálfurum eða leiðbeinendum og einnig að viðkomandi yfirgefi ekki laugarsvæði fyrr en öll börn í hans hópi eru farin til búnings-/baðklefa.

Sundgestum er óheimilt að nota köfunartæki í laug, þ.m.t. öndunarpípur og grímur sem ná yfir öndunarfæri, nema með leyfi laugarvarðar. Starfsmenn sundlauga þurfa að hafa góðar gætur á notkun flotleikfanga og geta bannað ungum lítt syndum sundiðkendum notkun þeirra nema ábyrgir gæslumenn gæti fyllstu varúðar.

Einstaklingum undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum. Gestir sund- og baðstaða skulu í hvívetna hlýða fyrirmælum starfsmanna sundstaða varðandi öryggi og hollustuhætti. Laugarverði er heimilt að vísa gesti úr laug eða meina honum aðgang að laug telji laugarvörður það nauðsynlegt til að tryggja öryggi eða þegar gestur fer ekki að lögum og reglum“.

Sjá nánar í Handbók um sund og baðstaði frá Umhverfisstofnun

Þetta vefsvæði byggir á Eplica