Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Auglýsing um skipulagsmál í Sveitarfélaginu Árborg

Samkvæmt 30. gr. með vísan í 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kynnt eftirfarandi skipulagslýsing.

1. Aðalskipulag Árborgar 2020-2036 - Breytingar á ASK 2024 - SKIPULAGSLÝSING

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum 21.2.2024 lýsingu vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi Árborgar 2020-2036. Breytingin er samþykkt í samræmi við 30, og 36 gr. skipulagslaga nr.123/2010 .

Með skipulagslýsingu er íbúum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir sem snúa að stefnu aðalskipulagsbreytingar. Fyrirhugaðar breytingar snúa að þéttbýlinu Selfossi, fyrir utan að sett er inn nýtt svæði fyrir samfélagsþjónustu í landi Stóra-Hrauns auk breytinga í landi Votmúla1, Lóustaða1,og Votmúla 3. Tillögur að skipulagsbreytingum verða eftir atvikum unnar og kynntar-auglýstar einar sér eða nokkrar saman í tillögu. Fyrirhugaðar breytingar eru gerðar vegna breyttra hugmynda sveitarfélagsins um landnotkun, vegna óska landeigenda/lóðarhafa og til að heimila nýtingu jarðhita, auk leiðréttinga og skörunar á landnotkunarflokkum.

Breytingarnar taka til eftirfarandi þátta:

1. Miðsvæðið M3 breytist í íbúðarbyggð. Heimilt verður að vera með hverfisverslun á lóðum næst hringtorgi Eyrarvegar og Suðurhóla.

2. Tjaldsvæði fyrir utan á. Unnið er að útfærslu á framtíðar tjaldsvæði. Gera þarf lítilsháttar breytingu á afmörkun afþreyingar- og ferðamannasvæðis vegna þess.

3. Borhola hitaveitu. Sett verður inn borhola hitaveitu suðvestan við SS.

4. Selfossflugvöllur. Vesturbraut flugvallarins verður stytt, tekin út sá hluti hennar sem er á landi í einkaeigu. Hindranaflötum breytt til samræmis.

5. Kjallarar á Selfossi. Heimilt verður að vera með kjallara á Selfossi. Gildir það líka um flóðasvæði, en mannvirki á slíkum svæðum skulu uppfylla tiltekin skilyrði ef gert verður ráð fyrir kjallara.

6. Lóðin Austurvegur 20 verður öll miðsvæði. Í dag er um helmingur hennar samfélagsþjónusta.

7. Verslunar- og þjónustusvæðinu VÞ8 og þeim hluta samfélagsþjónustu S5 sem nær til leikskólans Glaðheima verður breytt í miðsvæði.

8. Iðnaðarsvæðinu I1 verður að hluta til breytt í athafnasvæði AT2 og að hluta eða öllu leyti breytt í verslunar- og þjónustusvæði.

9. Sett verður inn nýtt svæði fyrir samfélagsþjónustu í landi Stóra-Hrauns.

10. Íbúðarbyggðinni ÍB27 verður breytt til baka í athafnasvæði (AT5) eins og var í eldra skipulagi. 11. Á hluta af opnu svæði, norðan við Sunnulækjarskóla, verður heimilt að útbúa aðstöðu fyrir skátana.

12. Syðsti hluti Votmúla 1, L166214 og landspildna Lóustaðir 1, L229747 og Votmúli 3, L213238 verði verði breytt úr núverandi landnotkunarflokki L2, í L3.

Skipulagslýsing verður kynnt í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og með auglýsingu í Dagskránni auk þess að vera aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins Árborgar arborg.is Umsagnir skulu vera skriflegar og berast í Skipulagsgátt fyrir auglýstan tímafrest. Með kynningu skipulags- og matslýsingar er umsagnaraðilum, hagsmunaaðilum og almenningi gefinn kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar sem að gagni gætu komið við mótun breytingarinnar. Óskað verður eftir umsögnum frá eftirtöldum aðilum: Skipulagsstofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Vegagerðin, Veðurstofan, Flóahreppur, Sveitarfélagið Ölfus, Umhverfisstofnun, Minjastofnun, Náttúrfræðistofnun Íslands.

Aðalskipulag Árborgar 2020-2036

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru auglýstar eftirfarandi deiliskipulagstillögur:

Skipulagsnefnd Árborgar hefur um nokkurt skeið horft til þess að reyna að þétta byggð, þar sem þess er kostur. Hefur verið horft sérstaklega til auðra lóða sem einhverra hluta vegna hafa staðið þannig árum saman í þegar byggðum hverfum. Í einhverjum tilfellum hafa umræddar "lóðir" verið leiksvæði, sem í áranna rás hafa ekki verið nýttar. Nefndin telur að það sé ávinningur fyrir sveitarfélagið Árborg, að það séu byggð hús á lóðunum, innan um önnur íbúðarhús, og myndist þá heildstæð götumynd á hverju svæði fyrir sig. (Ofangreindur texti á við tillögur 2,3 og 4.)

 2. Stekkholt - Deiliskipulag íbúðabyggðar

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti þann 21.2.2024 deiliskipulag íbúðabyggðar í Stekkholti, á Selfossi.

Meginmarkmið deiliskipulagstillögunnar er að gera deiliskipulag fyrir götumyndina við Stekkholt, og þá sérstaklega vegna lóðar nr. 22. Lóðin Stekkholt 22, er 1335m2 að stærð. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að byggja á umræddri lóð allt að 460m2 einbýlishús, með bílskúr, og er þá miðað við nýtingarhlutfallið 0.35. Mesta leyfilega vegghæð /mænishæð er 4.0m. Deiliskipulagstillagan er í samræmi við Aðalskipulag Árborgar 2020-2036.

Stekkholt íbúðabyggð

Stekkholt uppdráttur

3. Stjörnusteinar 7 og Heiðarbrún 2-8a - Deiliskipulag íbúðargötu

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti þann 21.2.2024 deiliskipulag íbúðabyggðar fyrir lóðirnar Stjörnusteina 7 og Heiðarbrún 2-8a, á Stokkseyri. Meginmarkmið deiliskipulagstillögunnar er að gera deiliskipulag fyrir heildargötumyndina fyrir lóðirnar Stjörnusteina 7 og Heiðarbrún 2-8a, á Stokkseyri. Deiliskipulagstillagan er í samræmi við Aðalskipulag Árborgar 2020-2036. Fyrir eru í gildi deiliskipulög fyrir lóðina Heiðarbrún 6 og Heiðarbrún 8, og munu þau falla úr gildi við gildistöku nýs deiliskipulags.

 Stjörnusteinar og Heiðarbrún 2-8a

4. Álfsstétt 1 og Eyrargata 2 – Deiliskipulag íbúðarlóða

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti þann 21.2.2024 deiliskipulag íbúðarlóða við Álfsstétt 1 og Eyrargötu 2 á Eyrarbakka. Meginmarkmið deiliskipulagstillögunnar er að gera deiliskipulag lóðirnar við Eyrargötu 2 og Álfsstétt 1 á Eyrarbakka. Deiliskipulagstillagan er í samræmi við Aðalskipulag Árborgar 2020-2036. Lóðin Eyrargata 2, er 832,0m2 að stærð og lóðin Álfsstétt 1, er 926,0m2 að stærð. Innan byggingarreita er heimilt að reisa einbýlishús og bílskúr og skulu allir byggingarhlutar rúmast innan byggingarreits. Nýtingarhlutfall er allt að 0,3 fyrir hverja lóð. Íbúðarhús skulu vera 1-2 hæðir með portbyggðu risi og mænisþaki. Bílskúr má vera frístandandi eða sambyggður húsi.

 Álfsstétt 1 og Eyrargata 2

5. Austurás L 208094 - Deiliskipulag frístundahúsa og aðstöðuhús

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti þann 21.2.2024 deiliskipulag frístundahísa auk aðstöðuhús í landi Austuráss L208094. Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir 4 frístundahúsum, auk aðstöðuhús, á 3ha spildu, norðan Votmúlavegar, við Lækjarmótaveg. Hámark byggingarmagns innan byggingarreits er 300m2, og er gert ráð fyrir gistingu fyrir allt að 20 manns. Aðkoma er af Lækjarmótavegi. Tillagan er í samræmi við kafla 4.2.1. í Aðalskipulagi Árborgar 2020-2036.

 Austurás deiliskipulag

6. Múli - Deiliskipulag 2 landspildna (Votmúli I)

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti þann 21.2.2024 deiliskipulag fyrir tvær landspildur í landi Votmúla 1, L166214. Jörðin Votmúli 1, L166214, er skilgreind í Aðalskipulagi Árborgar 2020-2036 sem lanbúnaðarland. Deiliskipulagið tekur til tveggja landspildna sem hvor um sig er um 10ha að stærð og eru skilgreindir 2 byggingarreitir á hvorri lóð, B1-Íbúðarhúsnæði og B2-Landbúnaðarhúsnæði.
Á B1 er gert ráð fyrir byggingu tveggja hæða íbúðarhúss auk sambyggðrar eða stakstæðrar bílgeymslu, með allt að 8,5m hámarkshæð, og hámarksbyggingarmagni allt að 600m2. Auk þess er heimilt að byggja allt að 200m2 gesthús á einni hæð, auk garðhýsi/gróðurhús á einni hæð, allt að 200m2, fyrir heimaræktun. Hæð aukahúsa er allt að 5m. Á B2 er heimilt að byggja tvær landbúnaðarbyggingar með 8m hámarkshæð, samtals allt að 1000m2.

Múli 1

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru auglýst eftirfarandi breyting á deiliskipulagstillögu:

 

2. Búðarstígur 18 - Nesbrú 4 - Breyting á deiliskipulagi Búðarstígs. Nesbrú.Túngötu og Bakkastígs

Breyting á gildandi deiliskipulagi við Nesbrú og Búðarstíg á Eyrarbakka, sem samþykkt var þann 11.október 2006, afmarkast af götunum Nesbrú, Túngötu, Bakarastíg og Búðarstíg og er um 2.9 ha að stærð. Samkvæmt aðalskipulagi Árborgar 2020-2036 nær deiliskipulagssvæðið til íbúðarbyggðar ÍB29 og er breytingin í samræmi við það. Markmið með deiliskipulagsbreytingu þessari er að efla möguleika á uppbyggingu svæðisins þar sem ný hús falli sem best að aðliggjandi byggð. Skilmálar taka mið af gildandi deiliskipulagi svæðisins og tillögu að verndarsvæði í byggð, þar sem áhersla er lögð á að ný hús innan verndarsvæðisins falli að ríkjandi byggingargerð, sem einkennast af gömlum stíl. Breytingin felst í að lóðirnar Búðarstígur 18 og 18a eru sameinaðar í eina og verða eftir breytingu Búðarstígur 18. Auk þess felst breytingin í færslu á byggingarreit á lóðinni Nesbrú 4, þar sem fyrir er íbúðarhús ásamt frístandandi bílskúr. Breyting og færsla er gerð á byggingarreit, sem nær nú umhverfis þegar byggðan bílskúr ásamt íbúðarhúsi. Lóðamörk eru teiknuð upp skv. ósamþykktu lóðarblaði frá Eflu, en breytingar eru gerðar á byggingarreit. Skilmálar fyrir nýtt hús á lóð Búðarstígs 18 haldast óbreyttir, þ.e. þar er hægt að reisa íbúðarhús skv. lið B. Ný einbýlishús og endurgerð eldri húsa, sbr. kafla 3.2 um húsagerðir í greinargerð gildandi deiliskipulags, þar segir: Stærð húsa að hámarki 200 m² auk skúrbygginga allt að 25-40m². Hús geta verið 2 hæða með lágu risi, eða einnar hæðar með risi, þó ekki hærra en 7m. Þau geta verið byggð á hlaðinn eða steyptan grunn með gólfkóta allt að 1,3m yfir landhæð.

Byggingarefni: steinsteypa, timburklæðning, báruð málmklæðning, hleðsluveggir s.s. hraunhleðslur eða aðrar steinhleðslur.Þak: bárujárnsklæðning, listað pappaþak, -zink- eða kopar, timbur. Þakhalli: 10°-70° risþak, brotið þak (Mansard) eða bogaþak (Samúelsþak). Að öðru leyti gilda skipulags- og byggingarskilmálar gildandi deiliskipulags sem samþykkt var 11. október 2006 og staðfest í B-deild 18. desember 2006.

Búðarstígur 18 og Nesbrú 4

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Austurvegi 67, Selfossi. Að auki er hægt að nálgast tillögurnar á heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar á vefslóðinni www.arborg.is

Skipulagslýsing nr. 1 er í kynningu frá 28. febrúar 2024, til og með 26. mars 2024. Þeir aðilar sem hafa athugasemdir eða ábendingar hafa frest til og með 26. mars 2024, til að skila inn til skipulagsfulltrúa (runarg@arborg.is), eða á www.skipulag@arborg.is.

Skipulagstillögur nr. 2-7 eru auglýstar með athugasemdafresti frá 28. febrúar 2024, til og með 10.apríl 2024. Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar, og er frestur til að skila inn athugasemdum til og með 10. apríl 2024.

Athugasemdum og ábendingum skal skila skriflega á skrifstofu skipulagsfulltrúa að Austurvegi 67, 800 Selfossi, eða netfangið www.skipulag@arborg.is

Í samræmi við 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er ákvörðun stjórnvalds kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um gildistöku skipulags í B-deild Stjórnartíðinda.

 

Virðingarfyllst,
Rúnar Guðmundsson
skipulagsfulltrúi


Þetta vefsvæði byggir á Eplica